138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[18:09]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Mig langar til að ítreka seinni spurningu mína, hvort hv. þingmaður mundi styðja frumvarp sem gerir ráð fyrir því að allir þeir sem eru með aflaheimildir, sama í hvaða tegund, mundu setja jafnhátt hlutfall inn í þessa svokölluðu potta sem ég taldi upp áðan þannig að skerðingin gagnvart þessum úthlutunum væri sambærileg hjá öllum en ekki misjöfn eftir tegundum.

Ég fór yfir það hér í ræðustól Alþingis fyrir ekki svo löngu að hefðbundnar vertíðarbátaútgerðir t.d. á Snæfellsnesi láta í kringum 4,5% af heimildum sínum inn í þennan pott á meðan Hraðfrystihús Þórshafnar setur 0,4% og Síldarvinnslan 0,7%. Þetta er ákveðið réttlætismál þannig að ég ítreka spurninguna.

Síðan segir hv. þingmaður að hæstv. ráðherra geti fært til innan svæðanna ef mikil skekkja kemur upp og ég fagna því og vona að menn verði á vaktinni með það.

Mig langar að lokum að spyrja hv. þingmann hver framtíðarsýn hans á strandveiðar er. Lítur hann svo á að við munum hafa sambærilegt aflamark á næsta fiskveiðiári og nú? Við sjáum hvað er að gerast, bátum er alltaf að fjölga og það verður kallað eftir hærra aflamarki, við þekkjum þá sögu. Hver er skoðun hv. þingmanns á því? Munum við þá hafa þetta aflamark og hugsanlega minnka ígildin sem mætti veiða á dag eða munu menn bæta við? Hver er skoðun hv. þingmanns?

Ég vil að lokum minna á það, virðulegi forseti, að þegar við vorum með handfærakerfið, svokallað dagakerfi, sem var síðan breytt yfir í klukkutímakerfi vegna þess að alltaf var kallað á meira og meira, þá var staðreyndin sú að það voru einmitt þeir sem voru inni í því kerfi, þ.e. trillukarlarnir sjálfir, sem börðust harðast fyrir því að leggja það niður. Þeir börðust harðast fyrir því sjálfir að leggja það kerfi niður vegna þess að þeir sáu að fleiri og fleiri voru að koma inn í það. Þeir heimtuðu viðmiðun sem þeir svo fengu og hvað gerðist? Strax á fyrstu vikunum höfðu (Forseti hringir.) 90–95% þeirra selt frá sér aflaheimildirnar.