138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

veiðieftirlitsgjald.

371. mál
[18:18]
Horfa

Frsm. meiri hluta sjútv.- og landbn. (Atli Gíslason) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 33/2000, um veiðieftirlitsgjald, með síðari breytingum, frá meiri hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar.

Nefndin hefur kallað eftir umsögnum og fjallað um málið. Í álitinu er getið þeirra gesta sem komu á fundi nefndarinnar og aðila sem veittu umsagnir.

Frumvarpið er lagt fram samhliða frumvarpi um strandveiðar sem hér var til umfjöllunar áðan. Með frumvarpinu er lagt til að auk gjalds vegna almenns leyfis til strandveiða greiði útgerðir fiskiskipa sem leyfi fá til strandveiða sérstakt gjald að fjárhæð 50.000 kr. Verði fjöldi leyfa til strandveiða á yfirstandandi fiskveiðiári svipaður og á því síðasta, eða á bilinu 400–600 leyfi, má gera ráð fyrir tekjum á bilinu 20–30 millj. kr. Gert er ráð fyrir að þessum tekjum verði ráðstafað til hafna þar sem afla er landað sem fenginn er við strandveiðar. Fiskistofa innheimtir gjaldið og skal hún á grundvelli aflaupplýsinga greiða höfnunum sinn hlut. Hlutfall hverrar hafnar skal vera það sama og hlutfall hafnarinnar er í heildarafla sem fenginn var við strandveiðar og landað var hjá viðkomandi höfn á tímabilinu. Aflinn skal reiknaður í þorskígildum. Það er ljóst að hafnirnar hafa af því töluvert umfang og vinnu að taka á móti aflanum og þykir rétt að greitt sé gjald á móti kostnaði og vinnu.

Nefndin fjallaði um málið á fundum sínum. Hún ákvað að senda málið til umsagnar hjá efnahags- og skattanefnd Alþingis sem telur að skattlagning samkvæmt frumvarpinu standist en bendir þó á tvær aðrar leiðir til að ná sama markmiði.

Umsagnaraðilar lögðust ekki gegn frumvarpi þessu verði strandveiðifrumvarpið að lögum en ýmsir umsagnaraðilar lýstu andstöðu við það.

Meiri hluti nefndarinnar leggur því til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt. Undir álitið rita hv. þingmenn Atli Gíslason, formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, Ólína Þorvarðardóttir, Björn Valur Gíslason, Margrét Pétursdóttir, Sigmundur Ernir Rúnarsson og Róbert Marshall.