138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

veiðieftirlitsgjald.

371. mál
[18:34]
Horfa

Frsm. meiri hluta sjútv.- og landbn. (Atli Gíslason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er einkum eitt sem ég vildi gera að umtalsefni í andsvari mínu en það eru ummæli hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar. Hann hefur ýmislegt á hornum sér í þessu máli, og segir að samkeppnisstöðu sé raskað. Þar vísar hv. þingmaður í álit frá efnahags- og skattanefnd. Nefndin vísar í álitinu til umsagnar fjármálaráðuneytisins um að ráðstöfun skattsins gæti raskað samkeppnisgrundvelli hafna. Hafnasambandið leggur hins vegar áherslu á að frumvarpið hafi sérstaka þýðingu fyrir minni hafnir og hafnir með dreifða starfsemi.

Ég hef velt þessari meintu röskun á samkeppnisstöðu fyrir mér. Þetta kom til tals í umfjöllun nefndarinnar um málið og aðstoðarmaður hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sagðist ekki skilja þetta. Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson gaf í sjálfu sér ekkert út á þetta, hann vísaði aðeins í álitið. Ég spyr hann, sem reyndan mann í sjávarútvegsmálum og hafandi verið sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um nokkurt árabil, hvernig hann sjái fyrir sér að slíkt gæti gerst. Í mínum augum er verið að leiðrétta kostnað fyrir umstang og umfang sem fylgir strandveiðunum. Ég tel líka að seinni leiðirnar tvær, sem bent er á í áliti efnahags- og skattanefndar, hefðu ekki náð fram að ganga í tíma. Hér er því komið til móts við minni hafnir og það er verið að gleðja Hafnasambandið. Ég get engan veginn séð hvernig samkeppnisaðstöðu er raskað.