138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

legslímuflakk.

540. mál
[18:55]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Eygló Harðardóttur kærlega fyrir að bera þetta mál inn í þingið. Það er kannski tímanna tákn að við stöndum hér og ræðum tíðablóð á Alþingi Íslendinga. Það hefur væntanlega ekki oft verið gert, en hér er um að ræða alvarlegt heilbrigðisvandamál sem hundruð íslenskra kvenna glíma við, heilbrigðisvandamál sem veldur miklum sársauka, miklum verkjum og ófrjósemi svo nokkuð sé talið. Jafnframt er þetta mjög viðkvæmt umræðuefni og jafnvel feimnismál, ekki síst vegna ófrjóseminnar og vegna þess að konur eru undirlagðar verkjum og finna kannski sérstaklega fyrir sársauka við samfarir. Þetta er ekki nokkuð sem konur ræða opinskátt.

Eins og hv. þingmaður benti á er það ekki aðeins svo að konan eigi að fæða börn sín með verkjum heldur er oft álitið að það sé einfaldlega hluti af lífi kvenna á kynþroskaskeiði að vera eins og fárveikar a.m.k. einu sinni í mánuði. Þess vegna eru þessir verkir oft afgreiddir sem lítilvægir og ekkert með þá gert sem leiðir til þess, eins og hér hefur verið bent á, að greining er oft síðbúin, jafnvel röng, og konur lenda í óþörfum eða margendurteknum aðgerðum.

Ég tel mjög mikilvægt að mál sem þetta komi inn í þingið og fái umfjöllun í heilbrigðisnefnd, þeir verði kallaðir til sem gerst þekkja til og lögð á ráðin um hvernig megi uppfylla takmark þessarar tillögu sem er tvíþætt, annars vegar fræðsla almennt í skólakerfinu og að fræða heilbrigðisstarfsmenn og ungar konur um legslímuflakk, hvernig megi bregðast við því og af hverju það stafar, og hins vegar hvernig við getum lært af reynslu annarra þjóða, eins og talið er upp í greinargerð með þingsályktunartillögunni, Dana og Svía, og koma á einn stað sérhæfðri þekkingu til að þjónusta þennan hóp kvenna. Ég vænti þess að hv. heilbrigðisnefnd komist að niðurstöðu um hvort nauðsynlegt sé að stofna sérstaka göngudeild eða hvort hægt sé að tryggja með öðrum hætti þjónustu við þennan hóp á göngudeild sem fyrir er, þá væntanlega við kvennadeild Landspítalans. Um þetta mun nefndin væntanlega fjalla.

Ég þakka sérstaklega fyrir hversu ítarleg þessi greinargerð er og upplýsandi. Það er athyglisvert að fyrir þinginu liggja nokkrar tillögur sem snerta heilbrigðismál og menn gætu sagt kynjaða læknisfræði sem konur hafa beitt sér fyrir að flytja inn í þingið. Greinargerðirnar eru svo ítarlegar og góðar að ég hlýt að vekja sérstaka athygli hæstv. forseta á því.

Ég vil einnig nefna hér þau samtök sem hv. þingmaður nefndi sem kalla sig Samtök um endómetríósu. Þar er um að ræða læknisfræðilegt heiti á þessum sjúkdómi. Ég átti hlut að máli við að finna nafn á þetta á íslensku á sínum tíma þegar nokkrar konur sem ég var í hópi með skrifuðu litla bók sem heitir Nýi kvennafræðarinn þar sem nokkuð ítarlega var fjallað um þetta vandamál. Þess vegna þykir mér vænt um að hv. þingmaður skuli nota þetta orð, legslímuflakk. Mér finnst það lýsandi en það gerir að vísu þá kröfu að maður viti hvað legslíma er. Það er sá vefur í legi kvenna sem hormónar stýra í tíðahringnum og ýmist þykknar og brotnar saman við blæðingar og skilst frá líkamanum.

Eins og hv. þingmaður sagði er þessi vefur ekki alltaf á réttum stað og það er vandamálið. Um þetta þarf að upplýsa og ég fagna þessari tillögu sérstaklega og vænti þess að hún verði til þess að hægt verði að bæta bæði þjónustu við og líðan þessa hóps.