138. löggjafarþing — 116. fundur,  30. apr. 2010.

málskotsréttur forseta Íslands.

[12:09]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég er ekki sammála því hjá hv. þingmanni að það sé mjög mikilvægt að ríkisstjórn marki sér stefnu í þessum efnum. Ég er þeirrar skoðunar að það sé stjórnlagaþing sem eigi að marka sér stefnu í þessu máli. Ég tel að þær breytingar sem hugsanlega þarf að ráðast í á stjórnarskránni eigi ekki að gera fyrr en stjórnlagaþing hefur verið kvatt saman, ég vona að það verði jafnvel á þessu ári, og fjalli um þetta mál. Ef stjórnlagaþing kemst að þeirri niðurstöðu að breyta eigi þeim lýðræðislegu hlutföllum sem eru í stjórnarskránni skal ég íhuga að endurskoða afstöðu mína. Það er hægt að hugsa sér aðrar leiðir eins og t.d. þær að minni hluti þingmanna hafi möguleika á að skjóta niðurstöðum þings eða ríkisstjórnar, lagasetningu, til þjóðarinnar. Það er líka ein tegund af málskotsrétti. Ég ímynda mér að stjórnlagaþing muni vega og meta (Forseti hringir.) þessa valkosti.

Ég ítreka það að ég hef ekki skipt um skoðun á þessari stundu um málskotsrétt forseta en áskil mér rétt til að gera það (Forseti hringir.) að fram komnum tillögum stjórnlagaþings.