138. löggjafarþing — 116. fundur,  30. apr. 2010.

aðildarumsókn að ESB og staða Grikkja.

[12:13]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Það eru fréttir fyrir mig að Evrópusambandið sé á leið í gjaldþrot en hugsanlega getur þó Framsóknarflokkurinn tekið að sér hlutverk skilanefndarinnar. En þegar skoðanabróðir hv. þingmanns tjáði sig í fjölmiðlum frá Brussel í gær, Olli Rehn, sem fer með efnahagsmálin, taldi hann að andlát Evrópusambandsins væri mjög orðum aukið. Hann taldi jafnframt að innan nokkurra daga yrði búið að búa til pakka sem mundi koma Grikkjum úr þeim vanda sem þeir eru í núna.

Hugsum okkur nú, frú forseti, að Ísland hefði verið innan Evrópusambandsins og orðið Evrópuríki þegar það komst í þau vandræði sem fyrri stjórnir og síðari hafa komið Íslendingum í. Ætli það hefði þá ekki verið þokkalegt fyrir okkur að geta haft slíkan bakhjarl? Ætli við á Íslandi hefðum ekki tekið fagnandi svipuðum aðgerðapakka ef við hefðum verið orðin evruþjóð þá?

Ég er líka þeirrar skoðunar, frú forseti, að ef Ísland hefði fyrir tíu árum síðan sótt um aðild að Evrópusambandinu, hefði gengið í Evrópusambandið þá, hefði tekið upp evruna, eins og hefði verið mjög auðvelt á þeim tíma, (Gripið fram í.) er að mínu viti mjög ólíklegt að efnahagshrunið hefði orðið á Íslandi. Í öllu falli tel ég að afleiðingarnar hefðu verið allt aðrar og miklu minni og eins og blasir við gagnvart Grikkjum núna hefðu Íslendingar átt bakhjarl.