138. löggjafarþing — 116. fundur,  30. apr. 2010.

aðildarumsókn að ESB og staða Grikkja.

[12:16]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Svona líkar mér best við Framsóknarflokkinn, á hröðu undanhaldi. Í sinni fyrri ræðu sagði hv. þingmaður að það væri Evrópusambandið sem rambaði á barmi gjaldþrots en nú hefur hún smækkað það niður í svona tvær, þrjár, fjórar, fimm þjóðir. Ef hún mætti halda þriðju ræðuna yrði kannski bara ein þjóð eftir.

Svar mitt er alveg afdráttarlaust. Ég tel að það hafi verið hárrétt ákvörðun hjá Alþingi, sem það tók raunar með stuðningi úr öllum flokkum sem á Alþingi sitja, að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Ég tel að það sé einn af lyklunum að því að leysa það vandamál sem við erum í núna. Ég tel að það sé einn af mikilvægustu þáttunum í uppbyggingarferlinu sem við erum komin í. Ég tel að það hafi verið hárrétt ákvörðun. En það skiptir í reynd ekki máli hvað mér finnst. Alþingi tók ákvörðunina og það verður þjóðin sem tekur ákvörðunina, (Gripið fram í: Það er ekki rétt.) það verður ekki utanríkisráðherra, ekki Framsóknarflokkur, ekki hv. þingmaður heldur þjóðin, alveg eins og þjóðin mun að lokum taka ákvörðun um hvort breyta eigi stjórnarskrá. (Gripið fram í: Það er ekki rétt.)