138. löggjafarþing — 116. fundur,  30. apr. 2010.

frumvarp um ein hjúskaparlög.

[12:17]
Horfa

Auður Lilja Erlingsdóttir (Vg):

Frú forseti. Í gær fór fram umræða á prestastefnu um lagafrumvarp hæstv. dóms- og mannréttindamálaráðherra um ein hjúskaparlög. Tillaga var lögð fram þar sem lýst var yfir stuðningi við frumvarpið en hún var ekki afgreidd. Á sama veg fór með tillögu Geirs Waage um að Alþingi létti umboði til vígslu í skilningi hjúskaparlaganna af prestum þjóðkirkjunnar.

Sú gríðarlega og brýna réttarbót sem frumvarp hæstv. ráðherra er að mínu mati, hefur því augljóslega vafist fyrir kirkjunnar mönnum á þessari prestastefnu. Því langar mig til að nýta tækifærið og spyrja hæstv. dóms- og mannréttindamálaráðherra hver framgangur frumvarpsins er og velta því upp hvort hæstv. ráðherra telji eðlilegt að vígslumönnum þjóðkirkjunnar sé heimilt að synja einstaklingum um hjónavígslu á grundvelli kynhneigðar.

Borgaralegur vígslumaður getur ekki skorast undan því að vígja fólk í hjúskap. Ég sé fyrir mér fyrirsögnina: „Fulltrúi sýslumanns neitar að gifta samkynhneigt par“, og sennilega málaferli í kjölfarið. Opinberum starfsmönnum er sem betur fer ekki í sjálfsvald sett hvort þeir inni af hendi þjónustu við þá sem til þeirra leita. Sumir munu eflaust telja mig teygja mig ansi langt í samanburðinum, að það sé vissulega eðlilegt að einstök trúfélög setji sér viðmiðanir og að stjórnvöld geti ekki þvingað trúfélög til að ganga gegn trúarsannfæringu sinni. Gott og vel. Það er þá verðugt umhugsunarefni hvort eðlilegt sé að starfsmenn þjóðkirkju, kirkju sem er sérlega studd og vernduð af íslenska ríkinu, geti mismunað íslenskum þegnum, meðlimum í þjóðkirkjunni, á grundvelli kynhneigðar. Viljum við að sú þjóðkirkja hafi vígsluheimild yfir höfuð?

Að endingu langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún hafi velt því fyrir sér í ljósi fyrrgreindra ástæðna að heimild til að vígja fólk til hjúskapar verði eingöngu á hendi borgaralegra stofnana.