138. löggjafarþing — 116. fundur,  30. apr. 2010.

frumvarp um ein hjúskaparlög.

[12:21]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir):

Virðulegi forseti. Frumvarpið er einmitt lagt fram í þessari mynd vegna þess að ég hef ekki trú á því að rétt sé að beita þvingunum í þessu máli. Ég tel einmitt að umræða og rökhyggja leiði til þess að það verði almennt þannig að samkynhneigð pör geti farið í þjóðkirkju eða aðrar kirkjur og fengið þar hjónavígslu. Ég vil líka árétta að ég tel ekki rétt að taka vígsluvaldið af trúfélögunum. Ég tel að þar sé of langt gengið og í rauninni það langt gengið að ekki sé tilefni til þess ef við horfum á það mál sem fyrir þinginu er vegna þess að það gerir einmitt ráð fyrir að þetta sé ekki skylda.