138. löggjafarþing — 116. fundur,  30. apr. 2010.

réttarhöld í máli mótmælenda.

[12:38]
Horfa

Þráinn Bertelsson (U):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Þór Saari vakti hér máls á mjög mikilvægu máli sem brennur á Alþingi Íslendinga. Þjóðin hefur beðið eftir rannsóknarskýrslu Alþingis með öndina í hálsinum. Þjóðin er enn með öndina í hálsinum og bíður eftir því að sérstakur saksóknari taki til starfa með því að leggja fram kærur á hendur þeim sem eiga aðild að því hruni sem yfir þjóð okkar gekk.

Nú er dómsvaldið búið að setja rétt yfir níu manns sem var vísað með ofbeldi héðan af svölum Alþingis þar sem þeir komu í fullum (Forseti hringir.) rétti en var vísað út. Erindið var að vara (Forseti hringir.) þing og þjóð við því hruni sem var yfirvofandi og handtökurnar fóru fram ekki samkvæmt (Forseti hringir.) dómsúrskurði heldur af handahófi hjá lögreglu á staðnum. (Forseti hringir.) Þessi réttarhöld eru blettur á réttarfari okkar. (Forseti hringir.) Þetta mál varðar Alþingi, þetta mál verðum við að ræða. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)