138. löggjafarþing — 116. fundur,  30. apr. 2010.

öryggismál sjómanna.

[12:40]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Í þessari utandagskrárumræðu ræðum við þá grafalvarlegu stöðu sem er í öryggismálum sjómanna. Ég vil í upphafi máls míns vitna hér í blaðaviðtal, með leyfi forseta, sem er tekið við Eirík Jónsson sem er skipstjóri á Sturlaugi H. Böðvarssyni AK.

Hefst nú tilvitnun:

„Stjórnvöld hafa brugðist. Eiríkur sagðist vilja koma á framfæri mikilli óánægju með hvernig búið væri að þyrlusveit Landhelgisgæslunnar. Hann telur að stjórnvöld hafi svikið sjómenn um loforð sem gefin voru á sínum tíma þegar varnarliðið fór, að þyrla skyldi ávallt vera til taks og sækja veika og slasaða sjómenn á hafi úti. „Þess er skemmst að minnast að á þessu skipi þurftum við að sigla í tíu klukkustundir til lands á móti veðri með mann sem var með hjartaverk. Hann fór í hjartaaðgerð þegar í land var komið. Við erum vægast sagt mjög óhressir með þessa þjónustu og ekki þarf að taka það fram að það hefði getað farið verr. Sennilega verður ekkert gert í þessu fyrr en einhver tapar lífinu.““

Mig langar líka að vitna hér í fréttaskýringu sem Helgi Bjarnason kom með í Morgunblaðinu í gær. Í henni kemur fram að sjómenn hafa af þessu miklar áhyggjur, það sé ekki spurning um hvort heldur hvenær ótímabært dauðsfall beri að höndum vegna þessara aðstæðna.

Mig langar líka að rifja hér upp staðreyndir sem felast í því að á síðustu 15 árum hefur 332 sjómönnum verið bjargað af þyrlusveit Landhelgisgæslunnar. Það kom fram á fundi hv. samgöngunefndar með forsvarsmönnum Landhelgisgæslunnar að í 75% þessara tilfella hefðu þurft að vera tvær áhafnir til að hægt væri að bjarga þessum sjómönnum.

Í dag erum við með 1,3 áhöfn, þ.e. við erum með tvær áhafnir mannaðar hluta af árinu. Þessar tölur segja okkur að það hefði ekki verið hægt að bjarga 175 sjómönnum á þessu 15 ára tímabili eða 12 á ári. Ég vek sérstaklega athygli á því, virðulegi forseti, að inni í þessum tölum eru ekki þeir sjómenn sem varnarliðið á Keflavíkurflugvelli bjargaði þegar það var statt hér.

Virðulegi forseti. Það þarf í raun og veru ekki að hafa mörg orð um þetta, þetta er gjörsamlega óásættanleg staða og algjörlega ótrúlegt að hér þurfi að verða eitt banaslys til viðbótar til þess að fá þetta leiðrétt. Ég er þeirrar skoðunar að verði hér banaslys út af þessum málum eins og þeim er fyrir komið í dag muni stjórnvöld bregðast við. Það er algjörlega óásættanlegt að það muni ekki gerast fyrr.

Mig langar líka til að fara aðeins yfir það hér hvað við getum hugsanlega gert því að við verðum jú að horfa fram á veginn. Ég tel mjög mikilvægt, og það er nauðsynlegt, að endurskipuleggja öll öryggismál landsmanna alveg frá grunni í þeirri stöðu sem við erum í. Því langar mig að reifa hér örfáar hugmyndir og kannski að óska eftir viðbrögðum frá hæstv. dómsmálaráðherra við þeim.

Það er í fyrsta lagi hvort ekki væri skynsamlegt að færa skipastól Hafrannsóknastofnunar yfir til Landhelgisgæslunnar. Ég tel það. Í því felst ákveðin hagræðing og það er líka hægt að nýta skip eins og hafrannsóknaskipið Árna Friðriksson jafnhliða til öryggisgæslu og til hafrannsókna, það er ekkert sem mælir því mót. Það gæti sparað okkur peninga og styrkt Landhelgisgæsluna.

Það væri líka hugsanlegt að færa fiskveiðieftirlitið frá Fiskistofu til Landhelgisgæslunnar til þess að styrkja stoðir Gæslunnar og ná fram hagræðingu sem væri þá hægt að nota til þess að manna þessar þyrlusveitir.

Síðan langar mig líka að velta þeirri hugmynd upp í þessari umræðu hvort hugsanlegt sé að skoða það loftrýmiseftirlit sem við erum með í dag af hálfu bandalagsþjóðanna. Það fer fram með þeim hætti að hér koma þotur í nokkra mánuði á ári. Væri hugsanlegt að hætta því og fá í staðinn herskip hér inn í landhelgina sem væri búið þyrlum sem gætu fylgst með loftrýmiseftirlitinu um leið? Til viðbótar gæti það verið með björgunarhlutverk af því að það eru þyrlur um borð.

Þetta er það sem mig langar til að varpa fram í minni fyrstu ræðu í þessari umræðu þannig að við horfum líka til framtíðar.