138. löggjafarþing — 116. fundur,  30. apr. 2010.

öryggismál sjómanna.

[12:45]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ásbirni Óttarssyni fyrir að taka upp þetta mikilvæga mál. Öryggi sjómanna og þáttur Landhelgisgæslunnar í því að tryggja það eru eitt af forgangsverkefnum í ráðuneytinu.

Í lögum um Landhelgisgæslu Íslands, nr. 52/2006, er m.a. mælt fyrir um að hún sinni öryggisgæslu og björgun á hafi úti. Þannig hefur hún lögbundnu hlutverki að gegna og það er brýnt að henni verði gert kleift að sinna því. Þar koma fjárveitingar til skjalanna. Þær þurfa í fyrsta lagi að vera notaðar með eins hagkvæmum hætti og unnt er og þær þurfa líka að vera nægjanlegar til þess að stofnunin geti sinnt hlutverki sínu.

Það er nauðsynlegt að velta því fyrir sér hvernig unnt er að tryggja öryggi sjófarenda. Það byggist annars vegar á skilvirkri vöktun hafsvæðisins og hins vegar á tækjakosti og mannafla til þess að koma sjófarendum til bjargar. Áhersla hefur verið lögð á að tryggja svo sem kostur er vöktun og eftirlit á hafsvæðinu umhverfis Ísland en þetta verkefni er í höndum Vaktstöðvar siglinga. Landhelgisgæslan rekur nú stjórnstöð sína innan Vaktstöðvar siglinga. Vaktstöðin er samræmd samskiptamiðstöð fyrir sjófarendur og gegnir hún afar mikilvægu hlutverki í því að tryggja öryggi sjófarenda. Öll boðun til björgunaraðgerða á sjó kemur frá Vaktstöðinni. Það ber líka að hafa í huga víðtækt samstarf Landhelgisgæslunnar við erlenda samstarfsaðila og víkur þá sögunni að tækjakosti.

Tækjakosturinn er auðvitað mjög nauðsynlegur í þessu öllu saman en það er jafnframt mjög dýr rekstur. Landhelgisgæslan hefur yfir að ráða tveimur varðskipum, einni flugvél og þremur þyrlum. Ég ætla að vinda mér strax í þyrlumálin vegna þess að það er það sem umræðan snýst um þótt við getum væntanlega verið sammála um að við björgun koma til ýmsir þættir, það fer eftir aðstæðum hverju sinni hvernig við er brugðist. Allur tækjakostur Landhelgisgæslunnar skiptir máli í þessu sambandi, þyrlurnar, flugvélin og varðskipin.

Sjómenn hafa lagt mikla áherslu á að þyrlureksturinn sé í lagi. Ég skil það ósköp vel vegna þess að það er mikið sannleikskorn í því að segja að þyrlurnar séu sjúkrabílarnir úti á hafi.

Frá árinu 2007 hafa verið áætlanir um að lágmarksþyrlubjörgunarþjónusta hér við land miðist við fjórar þyrlur og sex og hálfa þyrluvakt. Ég bendi á að þessar fyrirætlanir hafa ekki gengið eftir frá miðju árinu 2007, ég bendi á þetta ártal sérstaklega. Þá fórst ein af fjórum þyrlum Landhelgisgæslunnar og síðan þá hafa verið þrjár þyrlur. Það eru einungis fimm þyrluáhafnir vegna fjárskorts og það er ástand sem leiðir til þess að það er engin þyrla tiltæk allt að tíu daga á ári og aðeins ein þyrla tiltæk í allt að einn mánuð á ári. Þetta er mjög viðkvæm staða, við verðum að gera allt til þess að reyna að finna lausn á þessari stöðu og það er það sem við erum að vinna að.

Ráðgjafarnefnd dómsmálaráðuneytisins hefur nýlega skilað skýrslu um stöðu þyrlumála og hún var kynnt fyrir samgöngunefnd. Niðurstaðan er sú að til þess að tryggja ásættanlegan björgunarviðbúnað þurfi að bæta við kostnaði sem nemur 425 millj. kr. á ári. Þetta eru auðvitað gífurlegir fjármunir og það blasir ekkert við hvaðan þeir eiga að koma þannig að við verðum að reyna að hugsa í lausnum.

Hv. þingmaður nefnir þarna nokkra þætti til sögunnar sem ég tel vel koma til greina að skoða. Til dæmis starfsemi ríkisins á hafinu, getum við gert betur þar? Getum við samræmt starfsemina og getum við hagrætt þar? Ég nefni líka til sögunnar möguleika eins og útboð á flugrekstri eða flutninga á rekstrinum eða hluta í ódýrari aðstöðu. Allt þetta erum við að skoða og við erum í þeirri stöðu að við vorum við það að missa þriðju þyrluna úr landi fyrir örfáum mánuðum en það tókst að koma í veg fyrir það, við höldum þyrlunni áfram. Verkefni Landhelgisgæslunnar fyrir Evrópusambandið hafa líka leitt til þess að það eru ljósir punktar í stöðunni en þar er þá bara verið að kaupa smátíma til þess að huga að því hvernig við getum haft þetta til frambúðar. Það er nauðsynlegt að huga að þessum málum til langs tíma.

Ég er ekki þeirrar skoðunar að það eigi að bíða eftir slysi til þess að gera eitthvað. Það finnst mér algjörlega óásættanleg nálgun (Forseti hringir.) og það eru ekki mín orð.