138. löggjafarþing — 116. fundur,  30. apr. 2010.

öryggismál sjómanna.

[12:57]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Það er tvennt sem skiptir höfuðmáli fyrir Íslendinga: Að allir liðir gangi lipurt, því að þá gengur það sama yfir heimilin, og að öryggisþáttur landsmanna sé í góðu lagi, alveg sama hvort átt er við hversdagslífið, atvinnulífið eða heilbrigðisþjónustuna í heild. Þetta eru grundvallaratriði og í þessu dæmi hallar að mínu mati sérstaklega á einn þátt núna, það eru öryggismál sjómanna.

Um árabil hefur hallað á stöðu Landhelgisgæslunnar. Það er ekki við þá hæstv. ríkisstjórn sem nú situr að sakast frekar en fyrri ríkisstjórnir. Það hefur ekki verið gengið hreint til verka og í kjölfar þess að bandaríska varnarliðið hvarf af landi brott hefur ekki verið hnýtt upp með tryggum hætti og nú hallar á. Það gengur ekki því að það á auðvitað að meta líf sjómanna jafnmikils og annarra þjóðfélagsþegna. Ef vitnað er í orð Árna Bjarnasonar, formanns Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, segir hann að til þess að hægt sé að halda því fram með rökum að svo sé þurfi að vera lágmarksviðbúnaður hjá Landhelgisgæslunni.

Lágmarksviðbúnaður er lágmarksviðbúnaður og til þess að það gangi upp þarf að hafa tvær vaktir allan sólarhringinn allan ársins hring og það kallar á sex og hálfa áhöfn í rekstri. Þetta eru grundvallaratriði. Það þarf að leggja höfuðáherslu á það í stöðunni að tryggja þennan þátt.

Sjómenn skapa 60% af tekjum landsmanna. Sjómenn eru fjarri góðu gamni sem boðið er upp á hvunndags í landi. Þeir eru á hafinu og þeir afla þess sem er grunnurinn fyrir þjóðfélagið. Það á að sýna þeim þá virðingu að öryggi þeirra sé að fullu metið og tryggt, (Forseti hringir.) ekki síst með starfi Landhelgisgæslu Íslands.