138. löggjafarþing — 116. fundur,  30. apr. 2010.

öryggismál sjómanna.

[12:59]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Það er þarft mál og aðkallandi nú sem oft áður að ræða öryggismál sjómanna. En ég get ekki orða bundist yfir þeirri nálgun sem hv. þm. Ásbjörn Óttarsson lagði hér upp með í þessu. Ég verð að viðurkenna að mér hljóp kapp í kinn þegar þingmaðurinn spurði hvort það þurfi að verða banaslys áður en brugðist verði við stöðunni varðandi aðkomu Landhelgisgæslunnar að öryggi sjómanna. Þetta er ekki boðlegur málflutningur.

Eins og hæstv. dómsmálaráðherra sagði hér áðan er að sjálfsögðu ekki verið að bíða eftir banaslysi. Það kom ágætlega fram í hennar máli að þvert á móti er verið að vinna mjög markvisst að því að reyna að finna leið til lausnar á þessu máli. Það kom líka ágætlega fram hér í umræðunni að vandinn er ekki nýr. Þetta hefur verið viðkvæðið um langt árabil, að það mætti og þyrfti að treysta betur öryggi þeirra sem sækja störf sín og lífsviðurværi út á sjó.

Auðvitað get ég tekið undir það að Landhelgisgæslan hefur lögbundnu hlutverki að gegna, það lögbundna hlutverk verður auðvitað að tryggja stofnuninni. Það eru ákveðin mörk sem ekki er hægt að fara niður fyrir og við vitum að varðandi björgunarþáttinn er þyrluflotinn að sjálfsögðu það mikilvægasta og það sem þarf fyrst og fremst að standa vörð um. Ég treysti því að stjórnvöld og aðrir þeir sem með þetta mál fara geri það. Það kemur auðvitað vel til greina, finnst mér, í samhengi við samþættingu stofnana og samruna verkefna milli stofnana að þar eigi sér einhver tilfærsla stað milli t.d. Hafrannsóknastofnunar og Landhelgisgæslu, það er hið besta mál. En aðalatriðið er náttúrlega að það sé vilji og (Forseti hringir.) skilningur á mikilvægi þyrluflotans og sá skilningur held ég (Gripið fram í.) að sé fyrir hendi.