138. löggjafarþing — 116. fundur,  30. apr. 2010.

öryggismál sjómanna.

[13:02]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Ég er í sjálfu sér ekkert hissa á því að hv. þm. Ásbjörn Óttarsson velti upp spurningunni: Eftir hverju er verið að bíða? Það er alveg ljóst að þennan vanda þarf að leysa. Hann leysist ekki heldur þó að menn horfi langt aftur í tímann og vitni í gamlar ríkisstjórnir og eitthvað slíkt. Vandinn er til staðar í dag og hann þarf að leysa og um það þurfum við að vera sammála.

Við mundum aldrei sætta okkur við það að því yrði synjað ef kallað yrði eftir sjúkrabíl í vesturbæinn eða að slökkviliðið færi bara í annað hvert útkall. Þess vegna verðum við að leysa þennan vanda. Sjómenn og aðrir þeir sem þurfa að búa við öryggi Landhelgisgæslunnar geta ekki búið við þetta ástand, það er einfaldlega þannig. Þó svo — og við megum þakka fyrir það — að ekki hafi komið upp alvarlegt slys sem megi rekja til skorts á fjármagni vitum við að það getur gerst, í dag, á morgun, á þessari stundu eða einhvern tímann á næstunni. Við því þarf að bregðast.

Gjarnan er spurt um kostnað og menn geta spurt: Er verið að verðleggja mannslíf? Að sjálfsögðu er enginn að verðleggja mannslíf en þegar slysið verður, þegar þyrlusveitin eða Landhelgisgæslan getur ekki brugðist við, geta menn sagt: Ja, þetta mannslíf kostaði þetta. Við viljum ekki lenda í þeirri stöðu.

Það er hárrétt sem kom fram hjá hæstv. ráðherra, allur tækjakostur Landhelgisgæslunnar skiptir miklu máli, það er alveg ljóst. Við þurfum öflugt skip ef t.d. bátur festist uppi í landi, þarf að draga út og slíkt. Þess vegna verðum við að horfa á þetta heildstætt. En það er algjörlega óásættanlegt að við tökum sjúkrabílana frá þeim sem kannski þurfa mest á þeim að halda.

Samlíkingin sem ég var með uppi áðan, um það hvort við mundum hika við að senda sjúkrabíl í vesturbæinn eða eitthvað annað, á fyllilega við því að þetta eru sömu mikilvægu tækin fyrir þessa stétt.