138. löggjafarþing — 116. fundur,  30. apr. 2010.

öryggismál sjómanna.

[13:06]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa umræðu hér. Mér finnst samt mjög sérkennilegt þegar hv. þingmenn koma hér upp og saka mig um að halda því fram að það þurfi að fórna mannslífi til þess að við tökum þetta til alvarlegrar athugunar. Ég vitnaði hér í, eins og ég sagði, viðtöl við sjómenn um það hvernig þeir upplifa ástandið. Það eru bara staðreyndir málsins. Ég er ekki að setja þetta mál í pólitískar skotgrafir, ég frábið mér allan þann málflutning. Það er sameiginlegt verkefni okkar allra að leysa úr þessu. Staðan er eigi að síður svona.

Það er líka hægt að rifja það hér upp að í áranna rás hefur einmitt þurft að fórna lífum áður en breytingar hafa orðið á þessum málum. Það eru staðreyndir málsins. Ég hef spurt hér áður: Hvað mun gerast ef þessi staða kemur upp? Það verða einhver viðbrögð. Það er ekki við hæstv. dómsmálaráðherra að sakast, það er við Alþingi Íslendinga að sakast. Það erum við sem tökum ákvarðanirnar.

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hæstv. ráðherra þegar hún segir að auðvitað skipti tækjakostur Landhelgisgæslunnar öllu máli, en af því að við erum fyrst og fremst að ræða hér öryggismál sjómanna bendi ég á að þyrlurnar skipta öllu máli. Það er samdóma álit allra hagsmunasamtaka sjómanna að það sé númer eitt, tvö og þrjú. Kerfið er þannig í dag. Það þarf ekki að leita að skipum. Það eru allir komnir með STK-tæki og AIS-tæki þannig að Gæslan veit nákvæmlega hvar öll skip eru stödd. Þegar eitthvað kemur upp á, það þarf að bjarga þeim, þarf að vera hægt að gera það.

Ég ætla að segja að lokum, eins og ég hef sagt hér áður, að ég neita að trúa því að ég búi í því þjóðfélagi að menn byggi tónlistarhús fyrir tugi milljarða á sama tíma og ekki er hægt að bjarga lífi sjómanna. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)