138. löggjafarþing — 116. fundur,  30. apr. 2010.

reglugerð um strandveiðar.

[13:15]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég kem hérna upp til að hæla góðri fundarstjórn forseta, ekki til að gera athugasemdir við fundarstjórnina á nokkurn hátt. En í tilefni af orðum hv. þm. Einars Kristins Guðfinnssonar get ég sagt að á síðastliðnu sumri voru hafnar strandveiðar og unnin var mjög viðamikil skýrsla og úttekt á þeirri framkvæmd sem m.a. háskólasetrið á Ísafirði vann. Sú skýrsla var höfð til hliðsjónar þegar frumvarpið var aftur lagt hér fram. Það eru í sjálfu sér ekki neinar forsendur til þess að breyta í veigamiklum atriðum út frá því eins og það var framkvæmt á síðastliðnu ári en ég vona bara að frumvarpið fáist hér samþykkt, frú forseti, fyrr getur ráðuneytið náttúrlega ekki gefið út reglugerð. Það er alveg hárrétt hjá þingmanni, það tekur nokkra daga (Forseti hringir.) að ganga frá formlegri hlið málsins þegar er búið að samþykkja (Forseti hringir.) það hér. En ég legg áherslu á það og mun beita mér fyrir því að strandveiðar geti hafist sem allra, allra fyrst að (Forseti hringir.) því gefnu að lögin verði samþykkt hér, sem ég treysti, frú forseti. (Gripið fram í.)

(Forseti (RR): Hér dansa menn hárfínt um fundarstjórn forseta.)