138. löggjafarþing — 116. fundur,  30. apr. 2010.

reglugerð um strandveiðar.

[13:25]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (ber af sér sakir):

Virðulegi forseti. Ég var borinn þeim sökum að láta að því liggja að ég geri mér ekki grein fyrir því að reglugerðir væru ekki smíðaðar fyrr en að búið væri að samþykkja lög. Auðvitað vita þetta allir, en það er hins vegar alvanalegt í málum eins og þessum að ráðuneyti og ráðherrar geri grein fyrir efni reglugerða, sérstaklega þegar um er að ræða mál af þessu tagi þar sem reglugerðarheimild er svona opin. Það er ekki eins og við höfum ekki verið að reyna að kalla eftir þessum upplýsingum í umræðunni. Það var gert við 1. umr., það var gert við 2. umr., það var gert við 3. umr., það var gert á milli 2. og 3. umr. í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd. Það bar ekki árangur. Þess vegna erum við að reyna að kalla eftir þessum upplýsingum sem við teljum að sé eðlilegt að liggi hér fyrir. En nú er það að því er virðist fullreynt.