138. löggjafarþing — 116. fundur,  30. apr. 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[13:29]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég fagna því að frumvarp um strandveiðar sé nú loks komið til endanlegrar afgreiðslu hér á Alþingi. Ég tel að hér sé verið að stíga skref í áttina að því að færa byggðum landsins á ný, eða a.m.k. að treysta í sessi, rétt íbúanna til að nýta sér fiskimiðin við strendur landsins. Við getum kallað það frumbyggjarétt eða bara almenn mannréttindi. Hér er um að ræða opnun á kerfi sem hefur verið lokað og læst um áratugaskeið. Reynslan af þeirri tilraun sem gerð var síðastliðið sumar er ótvírætt góð eins og sýnt hefur verið fram á, af henni hefur hlotist ótvírætt samfélagslegt gildi og því ber að fagna. Ég er mjög ánægð að geta greitt þessu frumvarpi já-atkvæði mitt.