138. löggjafarþing — 116. fundur,  30. apr. 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[13:41]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það eru margir skafankar á þessu frumvarpi. Ég hef gert rækilega grein fyrir því við allar þrjár umræður þessa máls. Ég ætla nú ekki að fara að reyna að endursegja á tæplega einni mínútu þau atriði sem eru aðfinnsluverð. Hins vegar hefur hæstv. sjávarútvegsráðherra brugðist þannig við ákalli úr sjávarbyggðunum um auknar aflaheimildir að hann hefur tekið um það ákvörðun að á þessu fiskveiðiári skuli auka aflaheimildirnar um 6.000 tonn, þar af kannski í kringum 5.000 tonn í þorski. Hæstv. ráðherra hefur vísað til þess í opinberri umræðu að þá aflaaukningu sem kallað er eftir sé að finna í þessu frumvarpi hér. Við sjálfstæðismenn sem höfum tekið undir það að kalla eftir auknum aflaheimildum viljum þess vegna ekki leggjast gegn því að hægt sé að koma þessum auknu aflaheimildum út þótt í þessu formi séu og því sitjum við hjá við afgreiðslu þessa máls.