138. löggjafarþing — 116. fundur,  30. apr. 2010.

veiðieftirlitsgjald.

371. mál
[13:46]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við erum hér að greiða atkvæði um skattalagafrumvarp frá ríkisstjórninni, skattalagafrumvarp sem hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra flytur. Hann hefur bersýnilega ekki gert það í miklu samráði við fjármálaráðuneytið, sem þó undirbýr almennt talað skattalagafrumvarp af hálfu ríkisstjórnarinnar. Það kemur fram í áliti sem er í fylgiskjali minnihlutaálits okkar úr efnahags- og skattanefnd, sem fékk þetta mál til meðferðar, að að mati fjármálaráðuneytisins samrýmist þetta frumvarp mjög illa stefnu um að draga úr vægi markaðra tekjustofna. Það eru miklar aðfinnslur við þetta frumvarp frá efnahags- og skattanefnd. Það er greinilegt að fram hefur komið að þetta mál er unnið í algjörri einangrun af hálfu hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Þetta mál er þannig úr garði gert að þess má vænta að það verði að taka það upp von bráðar. Þetta er skattur upp á 30–40 millj. kr., sérskattur á strandveiðibátana, nýr strandveiðiskattur. (Forseti hringir.)