138. löggjafarþing — 117. fundur,  30. apr. 2010.

geislavarnir.

543. mál
[14:09]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að hv. þingmaður hafi ekki alveg áttað sig á því að við erum hér að tala um hættu sem steðjar að ungu fólki sérstaklega, miklu mun fremur en að þeim sem eldri eru. Við erum að tala hér um kláran krabbameinsvald skilgreindan sem slíkan af Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni og undirstofnun hennar. Þetta er ekkert grínmál um einhverja ljósabekkjalöggu og stóra ljósabekkjamálið eins og hv. þingmaður sagði. Mér finnst ekki eiga að ræða um þessa hluti í þeim dúr. Það er brýnt í þessu eins og öðru, líka hvað varðar allt uppeldi, að byrgja brunninn áður en barnið er dottið ofan í. Það vill svo til að víða í samfélaginu eru margs konar reglur þar sem dregin eru skýr aldursmörk. Það er til að mynda bannað að selja áfengi og bannað að selja tóbak undir tilteknum aldri og það þarf enga sérstaka löggu, mann á mann, á það, hv. þingmaður, vegna þess að þeir sem reka hvort heldur það eru verslanir, ljósabekki eða áfengisútsölur eru mestan part löghlýðið fólk og fer eftir þeim lögum og reglum sem gilda í samfélaginu. Við höfum að vísu horft upp á það hér á undanförnum missirum hvernig menn gengu fram hjá fyrirmælum og hunsuðu eftirlit og vildu ekki neitt slíkt og við þekkjum afleiðingar þess.

Ég treysti því að þeir sem reka sólbaðsstofur muni fara að settum reglum en það er í valdi Alþingis að setja slík lög og frumvarpið er tillaga þar um.