138. löggjafarþing — 117. fundur,  30. apr. 2010.

geislavarnir.

543. mál
[14:16]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Óskaplega var þetta fróðlegt hjá hæstv. heilbrigðisráðherra, alla vega fyrri hlutinn af svarinu, en það missti nú marks þetta grín um að starfsmenn sólbaðsstofa skyldu liggja í ljósabekkjum. Ég ætla að benda hæstv. heilbrigðisráðherra á að fólk í Áfengisverslun ríkisins liggur ekki ofan í vodkapela þegar það er að afgreiða frekar en starfsfólk á sólbaðsstofum liggur í ljósabekkjum. Þess vegna var ég að spyrja um þetta 18 ára ákvæði. Það þýðir ekkert að setja hér lög ef ekki er búið að hugsa um það fyrir fram hvernig á að framfylgja því. Þess vegna kom ég fram með þessa einföldu spurningu: Verður gerð sú krafa að starfsfólk ljósastofa þurfi að vera 18 ára og eldra? Þegar maður fer út í kjörbúð, sjoppu eða í Áfengisverslun ríkisins, má þá ekki fólk yngra en 18 ára afgreiða vörurnar sem þar eru seldar? Það hefur hæstv. heilbrigðisráðherra vonandi séð á verslunarferðum sínum á þessa staði.

Hæstv. heilbrigðisráðherra þurfti svo sem ekki að fara yfir þá hættu sem skapast af þessu. Allir vita að þessir geislar eru hættulegir en það er lagasetningin sem ég gagnrýni, þessi bannlagasetning sem Vinstri grænir standa fyrir í miklum mæli eftir að þeir komust í ríkisstjórn. Þetta er þeirra stefna, gott og vel, en það kemur fram í greinargerð með frumvarpinu að fólki í þessum áhættuhópi, notendum á aldrinum 12–18 ára, hefur stórfækkað. Þeim hefur fækkað svo mikið að með átaki verður þetta tæpast vandamál lengur. Þess vegna spyr ég ráðherra: Er ekki betra að vera með fræðslu í grunnskólum, fræðslu fyrir fermingarbörn og fræðslu fyrir ungt fólk víðast hvar í samfélaginu um hættuna sem í þessu felst, eða hjá foreldrum, eins og hv. þm. Ragnheiður Elín benti á hér áðan, í stað þess að setja lög um alla skapaða hluti, (Forseti hringir.) lög um bann við ljósabekkjanotkun fólks undir 18 ára aldri? Frú forseti, ég held að tíma mínum væri betur varið annars staðar en hérna í dag.