138. löggjafarþing — 117. fundur,  30. apr. 2010.

geislavarnir.

543. mál
[14:19]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Hér hefur hæstv. heilbrigðisráðherra mælt fyrir frumvarpi til laga um breytingar á lögum nr. 44/2002, um geislavarnir, með síðari breytingum. Ég vil strax lýsa því yfir að ég fagna þessu frumvarpi og tel tímabært að það komi fram. Ég vil rifja það upp að á 130. löggjafarþingi veturinn 2003/2004 lagði ég fram fyrirspurn til hæstv. heilbrigðisráðherra um notkun ljósabekkja. Fyrirspurnin hljóðaði svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Mun ráðherra beita sér fyrir strangari reglum um ljósabekkjanotkun ungs fólks með hliðsjón af því að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur mælst til þess að börn og unglingar yngri en 18 ára stundi ekki ljósaböð vegna hættu á krabbameini í húð?“

Þetta var árið 2003 og þá hafði það verið þekkt í tíu ár og sannað með klínískum rannsóknum að útfjólubláir geislar valda krabbameini. Það var líka orðið ljóst að tíðni húðkrabbameins hafði stóraukist í hinum vestræna heimi. Það var orðið heilsufarsvandamál hér á landi og kom aðallega fram hjá ungu fólki. Það sem er mjög alvarlegt við þetta krabbamein er m.a. ein tegund þess sem er mjög ágeng og ífarandi, hún leynir á sér, er illskeytt og oft búin að dreifa sér víða þegar meinið greinist. Þessi tegund krabbameins er illviðráðanleg þegar hún uppgötvast þó að hún sé í húð og sjáanleg. Þess vegna tel ég að það sé mikilvægt að fara að þeim leiðbeiningum sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin gefur út. Það er ekki gert að ástæðulausu. Þetta er hluti af lýðheilsuvörnum sem ég tel að við eigum að standa að, að lýðheilsusjónarmið eigi hér að ráða. Það er ekki að ástæðulausu að við eigum að grípa til þeirra aðgerða og þeirra lagasetninga sem þarf til þess að vernda börn andlega og líkamlega upp að 18 ára aldri. Á meðan þau teljast til barna, þ.e. upp að 18 ára aldri, er það á ábyrgð okkar fullorðinna og löggjafans að vernda heilsu þeirra, rétt eins og við setjum aldurstakmark hvað varðar sölu á tóbaki, sölu á áfengi, aldurstakmark varðandi bílpróf og aldurstakmark á vínveitingastöðum o.s.frv. Það er gert til þess að vernda börn og unglinga á unglingsárum þeirra. Lagasetningin styrkir auk þess stöðu foreldra gegn þrýstingi barna og unglinga, sem m.a. hefur lýst sér í því að unglingar hafa sótt í ljósabekki til að fá brúnan hörundslit. Ljósabekkjanotkun er orðin mjög óhófleg hjá yngri aldurshópum, sérstaklega hjá stúlkum rétt á táningsaldri. Voru á tímabili sérstök fermingartilboð í gangi svo þær gætu nú verið brúnar og fallegar þegar þær færu í hvítu kyrtlana. Sem betur fer er þessari auglýsingaherferð nú lokið. Fólk er nú orðið meðvitað um að óhófleg sólardýrkun eða útivera í sól er ekki holl börnum. Ljósabekkjanotkun er varasöm. Því fagna ég því að þetta frumvarp skuli vera komið fram og því vísað til heilbrigðisnefndar, sem ég tel að muni sinna því og gera það að lögum svo fljótt sem verða má.