138. löggjafarþing — 117. fundur,  30. apr. 2010.

geislavarnir.

543. mál
[14:38]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég fæ sjálfsagt stimpilinn „frelsisofstækismanneskjan“, vegna þess að ég verð bara að viðurkenna það, frú forseti, að það setur einfaldlega að mér hroll við þetta frumvarp. Ekki vegna þess að mér hugnist svo sérstaklega ljósabekkir, en mér hugnast ágætlega sólarljósið. Það sem veldur mér verulegum áhyggjum er þessi ólíka nálgun gagnvart Íslendingnum eftir því hvort hann er yngri en 18 ára eða 18 ára eða eldri þegar kemur að lagasetningu. Hæstv. heilbrigðisráðherra og hv. 6. þm. Suðvest., Siv Friðleifsdóttir, tala hér út frá heilbrigðissjónarmiðum og vitna báðar í setningarnar sem hér standa, með leyfi frú forseta:

„Bannið er sett á grundvelli heilbrigðissjónarmiða og í ljósi þess að útfjólublá geislun frá sólarlömpum er nú flokkuð sem krabbameinsvaldandi. Útfjólublá geislun eykur marktækt líkur á húðkrabbameinum.“

Það er væntanlega vísindalega sannað hvort það er útfjólubláa geislunin frá ljósalömpunum eða útfjólublá geislun almennt sem veldur þessu. Ef það er niðurstaðan og þetta frumvarp byggir á því, af hverju eru sólarbekkir ekki bannaðir? Ég spyr hv. þm. Siv Friðleifsdóttur, ef hún styður þetta bann á þeirri forsendu að notkun ljósabekkja auki marktækt líkur á húðkrabbameini, af hverju velur hún að styðja frumvarp sem verndar eingöngu 18 ára og yngri Íslendinga en ekki hina? (Forseti hringir.)