138. löggjafarþing — 117. fundur,  30. apr. 2010.

geislavarnir.

543. mál
[14:40]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla að svara þessu en ég ætla í leiðinni að spyrja hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur hvort fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í heilbrigðisnefnd íhugi kannski að koma með breytingartillögu um þetta mál og leggja til að þetta verði líka bannað fyrir fullorðna. Ber að skilja það svo? Ég vildi gjarnan fá svar við þessu af því ég held að hv. þingmaður þurfi eiginlega að svara því hvort hún trúir því innst inni að það sé rétt að þetta sé krabbameinsvaldandi, að þetta valdi krabbameini í einhverjum prósentum tilvika, af því ef svo er er þetta mál algjörlega réttlætanlegt þó að það snúi bara að börnum. Það gæti skánað ef það sneri að öllum, ég ætla ekkert að útiloka að svo verði í framtíðinni.

En ég tel eðlilegt að stíga þetta skref og byggi það m.a. á því að börn og ungmenni eru viðkvæmari fyrir þessum geislum. Þau eru viðkvæmari fyrir sólarlömpunum en fullorðnir. Þetta er verra fyrir börnin og ungmennin en fyrir fullorðna, þótt ég telji sjálf að þetta sé ekkert gott fyrir fullorðna yfirleitt af því þetta eykur líka líkur krabbameini hjá fullorðnum. Það hafa líka rannsóknir sýnt, en þetta er verra fyrir börn og ungmenni.

Ég tel að samfélagið hafi mjög ríkar skyldur við börn og ungmenni. Þau geta minna varið sig sjálf, eru áhrifagjarnari og þess vegna ber okkur að vernda þau frekar. Auðvitað eru mýmörg dæmi um lagasetningu sem snýr að svipuðum atriðum eins og t.d. að börn og ungmenni geta ekki keypt áfengi og sígarettur o.s.frv.

Ég tel (Forseti hringir.) því að það sé mjög eðlilegt að stíga þetta skref en útiloka ekki frekari skref í framtíðinni.