138. löggjafarþing — 117. fundur,  30. apr. 2010.

geislavarnir.

543. mál
[15:02]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Umræðan um frumvarp um bann við ljósabekkjanotkun ungmenna yngri en 18 ára er afar athyglisverð. Ég kom áðan í andsvar við hæstv. heilbrigðisráðherra og var mér ekki fullsvarað og er því komin aftur. Ég ætla að koma hér með frekari hugleiðingar um þetta úr því ég átti erindi í ræðustól vegna þess að ég sækist eftir svari frá hæstv. ráðherra.

Eins og ég fór yfir áðan er um að ræða bann við því að ungmenni yngri en 18 ára stundi ljósaböð í ljósabekkjum. Ég fór yfir það áðan að í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að notendum á þessum aldri hefur mjög fækkað hin síðari ár. Það gerðist í kjölfar kynningarátaks sem hét, með leyfi forseta, „Hættan er ljós“. Því var hleypt af stokkunum fyrir nokkrum árum og skilaði framúrskarandi árangri í að vekja fólk til vitundar um hvað þetta hefur mikið að segja.

Mikil hræðsla er hér við að fermingarstúlkur noti ljósabekki. Ég vil benda á að í ljósabekkjanotkun, eins og öðrum atvinnugreinum, hefur átt sér stað þróun. Ég veit til þess að fermingarstúlkur fara núna gjarnan í svokallaða „sprautulampa“ eða „brúnkulampa“ sem eru algjörlega hættulausir. Við erum þar að auki svo heppin að snyrtivörufyrirtækin framleiða nú bæði brúnkukrem og brúnkuklúta úr 100% náttúrulegu efni. Það getur kannski verið ástæðan fyrir því að ljósabekkjanotkun hefur minnkað, eins og sjá má í könnun Lýðheilsustöðvar sem ég vísaði í áðan.

Ég gerði athugasemd við það áðan af hverju við þurfum að standa hér og ræða frumvarp um ljósabekkjanotkun unglinga þegar heimilin og fjölskyldurnar hafa beðið eftir úrræði frá ríkisstjórninni í hátt í 19 mánuði.

Ég vil vekja athygli forseta á því, með góðfúslegu leyfi vonandi, að í dag féll dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem fellt var úr gildi að miða eigi við upphaflegan höfuðstól auk vaxta og það megi ekki reikna með annars konar verðtryggingu í stað gengisviðmiðunar. Héraðsdómur er þar með í annað sinn að fella þann úrskurð að lánin sem voru tekin með gengistryggingu í erlendum myntum færast niður. Í dag vitnaði Héraðsdómur Reykjavíkur mjög til dómsins frá 12. febrúar sem féll um sama efni. Þarna eru komnar tvær niðurstöður frá héraðsdómi sem gefa vísbendingu um að Hæstiréttur muni komast að sömu niðurstöðu. Þetta vekur miklar vonir og langtum meiri en nokkur gat ímyndað sér. Þetta þýðir á mannamáli, frú forseti, að öll gengistryggð lán færast niður miðað við upphaflegan höfuðstól lánsins, auk vaxta.

Hér sitja fulltrúar ríkisstjórnarinnar eftir þessa atburði eins og ekkert sé og ræða um ljósabekki.

Frú forseti. Ég kalla eftir forgangsröðun hjá ríkisstjórninni. Ég kalla líka eftir ábyrgð fyrir fólkið í landinu. Miklar vonir eru bundnar við ríkisvaldið nú á tímum, en því miður sinnir ríkisstjórnin ekki starfi sínu. Ef það væri eitthvert gagn í þessari ríkisstjórn hefði þinginu nú verið slitið og tafarlaust kallaður saman ríkisstjórnarfundur því þessir tveir dómar sýna að málflutningur bankanna er allur í uppnámi.

Það er ekki að sökum að spyrja, svona eru áherslurnar. Ég hef sagt að löngu er orðið tímabært að mynda samvinnustjórn um þau brýnu mál sem þarf að fjalla um, svo þingmenn þurfi ekki að eyða tíma sínum í vitleysu sem stundum er borin á borð fyrir okkur.

Ég kem nú aftur að frumvarpinu, hæstv. heilbrigðisráðherra, og langar að spyrja úr því ég fékk ekki svar áður í andsvari við ráðherrann.

Eins og komið hefur fram gildir 18 ára aldurstakmark unglinga til þess að kaupa tóbak, og áfengisbann til 20 ára. Þar sem 18 ára einstaklingar mega kaupa tóbak er gerð sú krafa í kjörbúðum, sjoppum og þar sem selt er tóbak, að starfsfólk sem afgreiðir tóbakið sé orðið fullra 18 ára. Sé unglingur sem vinnur á kassa í svona verslun ekki orðinn fullra 18 ára þarf hann að kalla til fullorðinn einstakling til að afhenda vöruna yfir búðarborðið. Þar sem hér eru sett aldurstakmörk um ljósabekkjanotkun verður hæstv. heilbrigðisráðherra að gera sér grein fyrir því hvar lögin enda. Þau enda í öngstræti því einhvers staðar er endapunktur á þjónustunni og endapunkturinn er sá einstaklingur sem selur ljósatímann. Sá einstaklingur hlýtur að þurfa að vera fullra 18 ára til þess að mega selja þessa þjónustu, á sama hátt og sá sem selur tóbak þarf að vera fullra 18 ára til að höndla með slíka vöru. Hefur ráðherrann athugað hvað þessu fylgir?

Hefur ráðherrann athugað í ráðuneyti sínu, á þeim tíma sem liðinn er frá því ég bar fram þessa spurningu í fyrra sinn, hvernig á að fara með þetta? Ráðherrann er raunverulega að leggja til nokkurs konar skerðingu á atvinnufrelsi því nú hefur eigandi ljósabekkjastofunnar ekki lengur t.d. frelsi til að ráða til sín skólakrakka, sem er eins og allir vita mun ódýrari starfskraftur en fullorðið fólk, launataxtarnir segja til um það. Mig langar til að fá skýr svör frá ráðherranum varðandi þetta. Er verið að breyta starfsumhverfi þessara fyrirtækja það mikið að í framtíðinni þurfi þar að starfa einstaklingar sem eru 18 ára og eldri? Og ef ráðherra metur að svo sé ekki, getur hún bent mér á til hvaða reglna og laga ráðherrann mun sækja heimildina?