138. löggjafarþing — 117. fundur,  30. apr. 2010.

geislavarnir.

543. mál
[15:10]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég vil þakka fyrir athyglisverðar umræður sem hér hafa farið fram. Margt hefur komið í ljós í orðræðum hv. þingmanna sem byggir á misskilningi. Trúlega er greinargerðin sem fylgir frumvarpinu ekki nægilega upplýsandi um ýmsa þætti sem eru grunnatriði málsins. Ég vænti þess að í hv. heilbrigðisnefnd verði unnt að fara betur yfir þau mál.

Ég vil í upphafi svara tveimur spurningum sem hv. þm. Vigdís Hauksdóttir beindi til mín. Í fyrsta lagi spurði hún í andsvari fyrr í umræðunni, sem ég náði ekki að svara, hverja væri verið að verja. Ég svara því til að hér er verið að verja börn. Það er meginmarkmið frumvarpsins. Verja á börn fyrir hættulegum geislum í ljósabekkjum sem eru nota bene hættulegri en sólarljós, af ástæðum sem ég ætla að koma að hér á eftir. Það er fyrst og fremst verið að verja börn.

Hv. þingmaður spurði líka hvað ætti að gera ef einhver yngri en 18 ára ynni á ljósabekkjastofu eða sólbaðsstofu, hvort það væri ekki mikil skerðing á atvinnufrelsi ef setja yrði slíkt aldurstakmark á starfsmenn? Þetta frumvarp fjallar ekki um það. Frumvarpið fjallar ekki um aldur þeirra sem vinna hér eða þar; það fjallar um að óheimilt verði að selja börnum 18 ára og yngri aðgang að ljósabekkjum í atvinnuskyni.

Ég vil benda á að ástæðan fyrir því til að mynda að sett hefur verið aldurstakmark við afgreiðslu á tóbaki í verslunum er sú að það hefur sýnt sig að þeir sem eru yngri en 18 ára framfylgja ekki lögunum jafn vel og þeir sem eldri eru. Það hygg ég að sé eina ástæðan.

Eins og ég sagði áðan, þá treysti ég því að þeir sem reka sólbaðsstofu muni hlíta lögum eftir sem áður, ef frumvarpið verður að lögum.

Frú forseti. Geislun er náttúrulegt fyrirbæri og sólarljósið og sólargeislarnir eru mönnum lífsnauðsynlegir í litlum skömmtum, til þess m.a. að mynda í húðinni D-vítamín, sem er nauðsynlegt til þess að byggja upp bein og við blóðmyndun. En sólarljósið er sannarlega missterkt. Mestur styrkur sem hefur mælst hér í Reykjavík er 4,5 á kvarða sem fer upp í 14 eða 15. Sólarstyrkurinn 4,5 er mældur í útfjólubláu ljósi. Geislar sólar og útfjólublátt ljós eru tvíþátta; A-geislar og B-geislar. Við miðbaug er sólarstyrkurinn nær þrefaldur, þ.e. hann mælist 12 en hæsti styrkur sem mælst hefur hér er rúmlega fjórir. Þetta hefur veruleg áhrif, m.a. á tíðni og útbreiðslu húðkrabbameins, sem rætt er hér.

Þegar menn eru í sól eins og við miðbaug, sem er nær þrefalt sterkari en sú sem hæst hefur mælst á Íslandi, forðast menn að vera úti í sólinni á milli kl. tólf til þrjú. Menn nota líka sólarvörn sem ver fyrir bæði A-geislum og B-geislum sólar. Menn nota líka fatnað til þess að hlífa húðinni. Menn gæta þess sérstaklega að verja börn. Þar sem endurkast sólar er mjög mikið, eins og til að mynda í snjó eða við vötn og á sjó, þurfa menn líka að gæta þess að nota gleraugu vegna þess að svona mikill sólarstyrkur, ég tala nú ekki um þegar hann margfaldast vegna endurkasts, getur brennt göt á hornhimnu augans.

Þetta á við um venjulegt sólarljós. Við það bætist að Íslendingar hafa á undanförnum árum tekið þátt með öðrum þjóðum heims í að banna notkun ósoneyðandi efna, í kjölfar Montreal-bókunarinnar sem var gerð 1985. Það er gaman að segja frá því, frú forseti, að jómfrúrræða þeirrar sem hér stendur var flutt á Alþingi einhvern tímann fyrr á öldinni. Hún fjallaði einmitt um ósoneyðandi efni og gott ef hæstv. forseti sem nú stjórnar fundi flutti ekki líka mál um sama efni.

Ósoneyðing upp úr 1970 stefndi í að verða alvarlegt vandamál fyrir jarðarbúa alla. Hvers vegna? Vegna þess að ósonlagið verndar og hlífir jörðinni fyrir útfjólublárri geislun. Sem betur fer hefur tekist með sameinuðu átaki þjóða heims að snúa blaðinu við. Ósonlagið er hætt að eyðast með sama hraða. Það voru ósongöt yfir pólunum og yfir miðbaug sem margfölduðu áhrif útfjólublárra geisla á húð og var mælanlegt í auknu húðkrabbameini. Þarna þurfti til að koma alþjóðlegt bann, sem við urðum aðilar að.

Hér hef ég talað um náttúrulegt sólarljós. Í ljósabekkjum er samsetning ljóssins og útfjólubláu geislanna allt önnur en í sólarljósi. Hlutfall B-geislanna er miklum mun hærra en í venjulegu sólarljósi, fyrir utan að styrkleiki ljóssins er miklum mun meiri en í sólarljósi. Þeir sem hafa farið í nýjustu sólarbekkina eða skoðað þá þekkja kannski að í þeim eru tvenns konar ljós. Annars vegar andlitsljós og hins vegar öðruvísi lampar með mismunandi styrkleika. Þeir geta haft allt að fimm- til sexfaldan þann styrk sem er í mesta mælda ljósmagni í Reykjavík. En það er ekki bara styrkurinn sem skiptir máli, það er líka tímalengdin.

Þetta eru allt saman hlutir sem kannski hefði mátt rekja betur í greinargerð með frumvarpinu og ættu kannski betur heima í umræðum í hv. þingnefnd en í þingsal. Vonandi verður líka farið vandlega yfir þessa hluti þar. Ég vildi bara, frú forseti, benda á að ljós og ljós, sól og sól, eru ekki það sama. Allt er þetta mælanlegt og áhrifin eru mismikil eftir styrkleika og tímalengd.

Ég vil taka undir orð hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur sem sagði hér áðan: „Við vitum nóg“. Við vitum nóg um skaðsemi þessara geisla til þess að bregðast við viðvörunum og hvatningu til þess að hlífa börnum við þessum ljósum.

Mig langar að minna á hvað fáfræðin kostaði á sínum tíma þegar röntgengeislarnir voru uppgötvaðir og menn gátu tekið myndir sem fóru í gegnum mjúka vefinn og sýndu bara beinagrindina. Menn tóku ljósmyndir af fólki á dansleikjum. Þetta þótti mikið skemmtilegt þangað til í ljós kom að þetta mikla ljósmagn olli verulegum þjáningum, sjúkdómum og dauða. Þetta var spurning um ljósmagnið. Nú höfum við beislað þekkingu okkar á röntgengeislum og notum þá til greiningar.

Enn eitt sem ég vil bæta við. Ljósið er okkur ekki bara nauðsynlegt til uppbyggingar á D-vítamíni og beinmyndun, við notum geislana líka til lækninga, sérstaklega við húðexemi og psoriasis. Það er enginn áform uppi um að koma í veg fyrir slíkt.

Frú forseti. Umræða hér á föstudagssíðdegi er athyglisverð. Mér finnst hún auðvitað skemmtileg, en ég heyri að ekki eru allir á sama máli. En ég þakka góðar undirtektir og áhugaverðar umræður og veit að það verður gaman í heilbrigðisnefnd að fjalla um þessi mál.