138. löggjafarþing — 117. fundur,  30. apr. 2010.

geislavarnir.

543. mál
[15:25]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Alltaf batnar ástandið því að nú eru börn sem eru yngri en 18 ára ekki eins viti borin og fólk sem er eldra en 18 ára. Raunverulega sagði ráðherra að það þyrfti að hafa vit fyrir þeim sem eru yngri en 18 ára. Það þyrfti að setja lög á þá til þess að hafa vit fyrir þeim.

Það vill nú þannig til að ég punktaði líka hjá mér það sem hæstv. ráðherra sagði orðrétt um að þeir sem væru yngri en 18 ára við afgreiðslu mundu ekki fylgja lögunum um aldurstakmörk við sölu, þ.e. þeir sem selja tóbakið. Hæstv. ráðherra sagði vissulega og viðurkenndi fullum fetum að þetta ákvæði væri þarna út af því að þeir mundu ekki framfylgja lögunum. Með öðrum orðum er hún að fullyrða að fólk yngra en 18 ára séu lögbrjótar. Hvernig er hægt að fást við þetta?

Spurningunni er enn þá ósvarað. Ég spyr líklega í þriðja eða fjórða sinn: Telur ráðherrann þar sem verið er að leggja aldursbann við ljósabekkjanotkun miðað við 18 ár að þetta frumvarp feli í sér að starfsfólk ljósastofa þurfi að uppfylla 18 ára aldursskilyrði til þess að selja í ljósabekki vegna þessa aldursákvæðis í lögunum, sambærilegt við það sem á við um tóbak?

Spurningin er einföld. Þetta er síðasta andsvarið. Ég kemst ekki hér upp í fleiri ræður að sinni og ætla mér ekki að tala meira í þessu máli en þetta er svo einföld spurning að hæstv. ráðherra hlýtur að geta svarað þessu.

Svo við drögum þetta saman að lokum: Það eru náttúrlega fyrst og fremst foreldrar sem bera ábyrgð á börnum sínum innan þess almenna ramma sem löggjafinn setur. Það á ekki að setja bannlög um alla skapaða hluti sem einhverjum ráðherrum dettur í hug eins og t.d. að banna ljósabekki þar sem hefur sýnt sig að dregið hefur stórkostlega úr (Forseti hringir.) notkun þeirra upp á síðkastið.