138. löggjafarþing — 117. fundur,  30. apr. 2010.

höfundalög.

523. mál
[15:28]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breyting á höfundalögum, nr. 73/1972, með síðari breytingum.

Frumvarpið er byggt á tillögum höfundaréttarnefndar og varðar tilskipanir frá Evrópuþingi og Evrópuráði. Í fyrsta lagi tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins um samræmingu tiltekinna þátta höfundaréttar og skyldra réttinda í upplýsingasamfélaginu 2001/29/EB, tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins um fullnustu hugverkaréttinda 2004/48/EB og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins um þjónustu á innri markaði 2006/123/EB.

Frá árinu 1991 hafa fyrirrennarar mínir í embætti menntamálaráðherra í þrígang gefið fyrirheit um löngu tímabæra heildarendurskoðun höfundaréttarlaga til að lögin megi samræmast betur þróun tækni og samfélags. Þá hefur menntamálanefnd Alþingis hvatt til endurskoðunar laganna af sömu ástæðu. Frumvarp þetta er afrakstur fyrsta áfanga í heildarendurskoðun höfundalaga en við gerum ráð fyrir að lögin verði endurskoðuð á næstu þremur árum í jafnmörgum áföngum með tilheyrandi breytingarfrumvörpum og miðað er svo við að heildarfrumvarp til nýrra höfundalaga líti dagsins ljós árið 2012.

Við undirbúning þessa frumvarps var haft samráð við helstu hagsmunaaðila og voru drög að frumvarpinu send þeim til umsagnar og það haft um hríð til kynningar og athugasemda á heimasíðu mennta- og menningarmálaráðuneytis. Áður en gengið var frá endanlegum frumvarpstexta og athugasemdum með frumvarpinu var höfð hliðsjón af framkomnum athugasemdum og ábendingum.

Frumvarpið hefur að geyma eftirtaldar breytingar á höfundalögum:

Lagðar eru til breytingar á 12. gr. höfundalaga um takmarkanir á höfundarétti til hagsbóta fyrir bóka-, skjala- og listasöfn vegna eintakagerðar í öryggis- og varðveisluskyni, gerðar sérstakra afnotaeintaka þar sem frumeintök þykja of viðkvæm til útláns o.fl.

Samkvæmt 12. gr. gildandi laga, eins og henni var breytt með 3. gr. laga nr. 9/2006, skal setja reglugerð um heimild skjalasafna, bókasafna, safna og menntastofnana til að gera eintök af verkum til notkunar í starfsemi sinni. Sú reglugerð hefur þó ekki verið sett. Í eldri útgáfu lagaákvæðisins samkvæmt 12. gr. laga nr. 73/1972 var einungis um heimild til útgáfu reglugerðar að ræða. Reglugerð um nánari skilyrði fyrir heimild bóka- og skjalasafna til eintakagerðar eftir verkum til notkunar í eigin starfsemi hefur þrátt fyrir þetta aldrei verið sett. Á þeim tíma sem liðið hefur frá gildistöku laga nr. 73/1972 hefur því ríkt ákveðin réttaróvissa um heimildir og skilyrði fyrir eintakagerð bóka- og skjalasafna til notkunar í eigin starfsemi. Fyrir söfnin hefur þetta verið bagalegt þar sem á þeim hafa hvílt skyldur samkvæmt öðrum lögum sem hafa m.a. falið það í sér að eintakagerð getur verið óhjákvæmilegur liður í því að veita lögbundna þjónustu. Að tillögu höfundaréttarnefndar er hér lagt til að kveðið verði á um að heimildir safna til eintakagerðar verði í sjálfu lagaákvæðinu.

Í 12. gr. gildandi laga segir að eftirgerðarheimildir nái til menntastofnana en í frumvarpi þessu eru menntastofnanir undanskildar. Þess í stað er ráðgert að heimild til eintakagerðar taki til bókasafna tiltekinna menntastofnana en ekki til eintakagerðar í almennri starfsemi menntastofnana.

Þá er mælt fyrir nýrri 12. gr. a sem fjallar um heimildir safna til að veita aðgang að verkum á athafnasvæði sínu með þar til gerðum búnaði. Hér er því um ákveðna réttarbót fyrir söfn að ræða.

Í öðru lagi er lagt til að samningsumboð rétthafasamtakanna vegna ljósritunar, betur þekkt sem Fjölís, samkvæmt 15. gr. a í lögunum verði ekki bundið við íslenska höfunda eingöngu. Breytingin felur það í raun og veru í sér að Fjölís hafi framvegis samningsumboð vegna ljósritunar og hliðstæðrar eftirgerðar fyrir alla höfunda, erlenda jafnt sem innlenda.

Í þriðja lagi er lagt til að rýmkaðar verði takmarkanir á höfundarétti samkvæmt 19. gr. laganna í þágu notenda sem ekki geta nýtt sér venjulegt prentað mál og þannig aflétt takmörkunum á eintakagerð og dreifingu verndaðs efnis til slíkra aðila. Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. gildandi laga er heimil eintakagerð og dreifing þeirra eintaka sem gerð hafa verið til sérstakra nota fyrir þá sem vegna fötlunar geta ekki lesið prentað mál svo framarlega sem það er ekki gert í fjárhagslegum tilgangi. Í 2. og 3. mgr. 19. gr. eru sett frekari skilyrði fyrir beitingu framangreindrar heimildar í 1. mgr. sömu greinar. Hins vegar er dreifingin takmörkunum háð þar sem hún er óheimil með útláni eða leigu. Hér er lagt til að þessum hömlum verði aflétt með brottfalli 3. mgr. og 2. mgr. 19. gr. laganna að hluta og sá sem eignast eintak sem gert er á grundvelli 1. mgr. 19. gr. höfundalaga mun þá öðlast heimild til að gera notkunar- og öryggiseintak af því.

Einnig er lagt til að orðalaginu „aðra þá sem vegna fötlunar eru ófærir um að lesa prentað mál“ verði breytt í „aðra þá sem eru ófærir um að nýta sér venjulegt prentað mál til lestrar“. Orðalagsbreytingin er samkvæmt tillögu Blindrabókasafns Íslands og vísar til orðalags í 1. gr. laga um Blindrabókasafnið. Hér er því í raun og veru um að ræða ákveðna réttarbót fyrir þá sem þurfa sérstaka aðstoð við lestur eða sérstök eintök til lestrar.

Í fjórða lagi er lagt til að tekið verði upp ákvæði í 54. gr. höfundalaga um refsingu fyrir hlutdeild í höfundaréttarbrotum. Hér má segja að sé verið að leggja til ákveðið nýmæli sem tengist tilkomu höfundaréttarbrota á netinu. Þá fór fyrst í einhverjum mæli að reyna á refsiábyrgð svonefndra hlutdeildarmanna í slíkum brotum. Ekki hefur verið gert ráð fyrir þessum möguleika í íslensku höfundalögunum. Hér á landi hefur verið litið svo á að beita megi ákvæði 22. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, um hlutdeild með lögjöfnun. Þannig segir í greinargerð með almennum hegningarlögum að ákvæðum um hlutdeild megi „að sjálfsögðu“ beita með lögjöfnun utan laganna þegar skilyrði eru fyrir hendi. Að mati höfundaréttarnefndar er hins vegar tryggara að mæla sérstaklega fyrir um það í höfundalögunum sjálfum að brot þeirra sem eiga hlutdeild í brotum annarra séu refsiverð á sama hátt og brot þeirra sem teljast aðalmenn í brotunum, enda geti oft verið erfitt að greina á milli þessa tvenns, til að mynda þegar um er að ræða refsiverð not höfundarverka á netinu.

Í fimmta lagi er lagt til að viðurkenning mennta- og menningarmálaráðuneytis á samningsumboði og fyrirsvari höfundaréttarsamtaka fari fram eftir sérstökum málsmeðferðarreglum þannig að uppfyllt séu skilyrði í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins um þjónustu á innri markaðinum 2006/123/EB. Sú tilskipun var tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 45/2009. Af ákvæðum þeirrar tilskipunar leiðir að aðildarríkjum EES-svæðisins ber að yfirfara málsmeðferð við opinberar leyfisveitingar og ryðja úr vegi ýmsum skilyrðum og hindrunum fyrir þjónustufrelsi á innri markaði og þekkja hv. þingmenn væntanlega þessa tilskipun vel. Innleiðing hennar liggur í raun fyrir í sérstöku lagafrumvarpi hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra um þjónustuviðskipti, en jafnframt var lagt fram samhliða því frumvarpi frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum. Sökum innleiðingar tilskipunarinnar í íslensk lög er talin ástæða til að gera breytingar á fyrirkomulagi við viðurkenningu þeirra höfundaréttarsamtaka sem fara með samningsumboð fyrir hönd félagsmanna sinna og taka við greiðslum fyrir þeirra hönd í skjóli svonefnds heildarleyfis, með þeim réttaráhrifum að utanfélagsmenn verða bundnir við ráðstafanir samtakanna. Ákveðið var að mæla frekar fyrir um þessar breytingar í sérstöku frumvarpi en að fella þær inn í frumvarp hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra.

Samkvæmt tilskipuninni þurfa allar kröfur í landslögum um viðurkenningu eða opinbert starfsleyfi sem skilyrði fyrir veitingu þjónustu hér á landi að uppfylla skilyrði í 9. gr. tilskipunarinnar en starfsleyfi eða viðurkenning er skilgreint sem hvert það ferli sem þjónustuveitandi þarf að undirgangast til að öðlast formlega ákvörðun eða ætlað samþykki hjá lögbæru yfirvaldi varðandi aðgang að þjónustustarfsemi eða framboði þjónustu, samanber 6. mgr. 4. gr. tilskipunarinnar. Af kröfum í 9. gr. tilskipunarinnar leiðir að leyfisfyrirkomulagið má ekki mismuna umsækjendum, það verður að teljast nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna og það verður að uppfylla meðalhófsreglu, þ.e. að samræmi sé á milli takmörkunar og tilgangsins sem stefnt er að. Í fyrsta lagi þarf að leggja mat á það hvort leyfisfyrirkomulagið stuðlar að þeim markmiðum sem það er grundvallað á. Í öðru lagi þarf það að vera nauðsynlegt en í kröfunni um nauðsyn felst þó að ekki megi ganga lengra í kröfum til þjónustuveitanda en þjónar markmiðum leyfisfyrirkomulagsins, samanber skýringu í 54. formálsgrein þjónustutilskipunarinnar þar sem segir að fyrirkomulag leyfa eigi einungis rétt á sér þegar fullnægjandi eftirliti með þjónustuveitanda verður ekki sinnt eftir á.

Í samræmi við þessi framangreindu ákvæði teljast eftirtalin ákvæði höfundalaga, sem varða lögformlega viðurkenningu ýmissa höfundaréttarsamtaka fela í sér ákveðnar þjónustuhindranir, þ.e. 11. gr., 15. gr. a, 23. gr., 23. gr. a, 25. gr., 25. gr. b, 45. gr. a og 47. gr. Framangreind ákvæði fela ekki einungis í sér þjónustuhindrun í skilningi tilskipunarinnar heldur er beinlínis ráð fyrir því gert að aðeins einum höfundaréttarsamtökum á hverju sviði verði veitt viðurkenning til að koma fram í nafni viðkomandi rétthafa.

Í frumvarpinu er lagt til að bætt verði við almennu ákvæði í nýrri grein, sem verður 53. gr. a, þar sem segir að ráðherra setji nánari reglur um viðurkenningu viðkomandi rétthafasamtaka eða samtaka þeirra í tilgreindum tilvikum, sem m.a. fela í sér ákvæði um tímafresti fyrir meðferð umsókna, ákvæði um frá hvaða tímamarki skuli reikna afgreiðslufrest, heimild til að framlengja afgreiðslufrest, afleiðingar þess að umsókn er ekki afgreidd innan frests og fleiri atriði.

Lagt er til að tekin verði upp í höfundalög valin ákvæði úr tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins um fullnustu hugverkaréttinda 2004/48/EB og varða afhendingu eða eyðileggingu eintaka, tækja og muna er tengjast broti, sérstaka bótareglu vegna höfundaréttarbrota, upplýsingarétt brotaþola vegna meðferðar máls og rétt brotaþola til opinberrar birtingar dómsniðurstöðu.

Samkvæmt 2. tölulið 1. gr. bókunar 28 við EES-samninginn eru EFTA-ríkin skuldbundin til að aðlaga hugverkalöggjöf sína meginreglunni um frjáls viðskipti með vörur og þjónustu og því stigi í verndun hugverkaréttinda sem náðst hefur í lögum sambandsins, þar á meðal um fullnustu þessara réttinda. Þrátt fyrir þessa tilvísun er fullnusta hugverkaréttinda á forræði hvers EES-EFTA-ríkis. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins um fullnustu hugverkaréttinda hefur mestmegnis að geyma réttarfarsreglur um málsaðild, sönnunargögn og ýmsar bráðabirgðaaðgerðir til að koma í veg fyrir brot gegn hugverkaréttindum. Af þeim sökum var tilskipunin ekki tekin upp í EES-samninginn.

Ísland hefur þegar innleitt í landslög réttarúrræði í tengslum við fullgildingu svonefnds TRIPS-samnings sem er viðauki við samning um Alþjóðaviðskiptastofnunina og lýtur að vernd hugverkaréttinda í viðskiptum. Ákvæði III. kafla TRIPS-samningsins hafa verið lögfest hér á landi með lögum um öflun sönnunargagna vegna ætlaðra brota gegn hugverkaréttindum, nr. 53/2006. Tilskipunin gengur í ýmsum atriðum lengra en TRIPS-samningurinn og lög nr. 53/2006. Meðal þeirra ákvæða sem ganga lengra er heimild til haldlagningar skjala er varða réttarbrot og haldlagningar ólögmætra eintaka. Réttur til að fá upplýsingar um dreifileiðir hinna ólögmætu hluta, réttur til að haldleggja innstæður á bankareikningum við tilteknar aðstæður, ásamt reglum um að málskostnaður falli á varnaraðila ef hann tapar máli. Lagt er til hér að tekin verði upp í höfundalög ákvæði sem eru sambærileg við 8. gr., 10. gr. og 15. gr. tilskipunar 2004/48/EB þó að Íslandi sé ekki skylt að innleiða þau ákvæði tilskipunarinnar sem ganga lengra en ákvæði TRIPS-samningsins. Fyrir því færum við þau rök að við endurskoðun réttarfarsúrræða höfundalaga vegna höfundaréttarbrota hefur höfundaréttarnefnd lagt áherslu á að tryggt sé samræmi við önnur norræn höfundalög. Það er í raun og veru eitt af leiðarljósum okkar í þessari endurskoðun því að þetta er auðvitað orðið mun alþjóðlegra umhverfi en áður var.

Í 11. gr. frumvarpsins er tekið mið af 10. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins um fullnustu hugverkaréttinda í þessari sömu tilskipun frá 2004. Ákvæði 10. gr. fjallar um ráðstafanir vegna höfundaréttarbrota í þágu þess sem misgert er við, þ.e. að ólögmæt eintök séu fjarlægð úr dreifingu og þeim eytt. Í 10. gr. tilskipunarinnar er einnig mælt fyrir um úrræði til að koma aftur á lögmætu ástandi með innköllun hluta, stöðvun á sölu og ónýtingu ólögmætra hluta. Lagt er til að viðhaldið verði ákvæði gildandi laga um afhendingu slíkra eintaka til brotaþola eða að þau séu gerð óhæf til ólöglegra nota.

Nýmæli er í 4. mgr. 11. gr. frumvarpsins þar sem kveðið er á um að fram fari mat á hagsmunum þeirra sem hlut eiga að máli þegar gripið er til ráðstafana. Við það hagsmunamat verður að líta til þess annars vegar hversu alvarlegt og umfangsmikið brotið er og hins vegar hvort ríkir hagsmunir eru í húfi fyrir þann sem er eigandi muna er til greina kemur að leggja hald á. Má sem dæmi nefna tölvu og tölvubúnað, en slíkur búnaður getur verið nauðsynlegur fyrir þann sem í hlut á til að geta haft aðgang að netinu og þar með að þeim upplýsingum og tjáskiptum er þar fara fram. Þetta hagsmunamat skiptir því í raun og veru miklu máli til að alls hófs sé gætt. Þá skiptir og máli hvort eigandi munar hafi verið viðriðinn brot. Sé hann grandlaus er almennt ekki gert ráð fyrir að munir í hans eigu verði gerðir upptækir, samanber niðurlag málsgreinarinnar.

Í b-lið 13. gr. frumvarpsins, sem verður 59. gr. b í lögunum, er tekið mið af 8. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins um fullnustu hugverkaréttinda sem miðar að því að gera rétthafa kleift að nálgast upplýsingar um uppruna vara eða þjónustu sem fela í sér brot á höfundarétti og að fá vitneskju um þá sem átt hafa hlut að brotinu. Ákvæði sem heimila dómara að leggja fyrir aðila að dómsmáli að leggja fram tiltekið sönnunargagn eru ekki fyrir hendi í hérlendri réttarfarslöggjöf en með ákvæðum greinarinnar má segja að stefnt sé að þessu marki. Úrræðinu verður eingöngu beitt gagnvart þeim sem hafa framið brot í atvinnuskyni, en ekki gagnvart neytendum sem hafa keypt vöru eða þjónustu. Sem dæmi um þýðingu úrræðisins má nefna það tilvik þegar sá sem fer með höfundarétt, t.d. framleiðandi muna sem njóta verndar sem nytjalist, verður var við sölu slíkra vara hér á landi. Hann gæti þá fengið smásalann skyldaðan til að láta uppi nafn og heimilisfang erlends framleiðanda, fjölda seldra eintaka og andvirði hins selda. Á grundvelli þeirra upplýsinga ætti rétthafinn möguleika á að setja fram kröfur á hendur erlendra dreifingaraðila og framleiðenda varanna.

Í c-lið 13. gr. frumvarpsins, sem verður 59. gr. c í lögunum, er tekið mið af 15 gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins um fullnustu hugverkaréttinda, sem er sem sagt í þessari sömu tilskipun frá 2004, þar sem er að finna heimild til að mæla fyrir um birtingu ákvarðana á því réttarsviði. Birting ákvarðana er talin hafa forvarnagildi gagnvart öðrum hugsanlegum brotamönnum og gegnir hlutverki í vitundarvakningu almennings um virðingu fyrir hugverkaréttindum.

Í 1. mgr. 12. gr. frumvarpsins er lagt til að sú takmörkun á bótafjárhæð, sem nú er kveðið á um í niðurlagi 3. mgr. 56. gr. gildandi laga, falli brott. Í 2. mgr. 12. gr. frumvarpsins er lagt til að við ákvörðun bóta verði ekki eingöngu miðað við það beina fjárhagstjón sem höfundur eða annar rétthafi hefur orðið fyrir, heldur verði einnig litið til þess fjárhagslega hagnaðar sem hinn brotlegi hefur haft af brotinu. Sé sú fjárhæð hærri en hið beina fjárhagstjón bæri þar af leiðandi að leggja hana til grundvallar þegar bætur eru ákveðnar. Þegar ekki verða færðar sönnur á tjón eða hagnað, sem oft getur orðið raunin, er gert ráð fyrir því í 2. málslið 2. mgr. að bætur skuli dæmdar að álitum, eftir mati dómara hverju sinni og styðst sú regla að nokkru leyti við dómaframkvæmd.

Í 3. mgr. 12. gr. frumvarpsins er að fyrirmynd 3. mgr. 83. gr. dönsku höfundalaganna lagt til að ekki verði framvegis skylt heldur einungis heimilt að dæma bætur fyrir miska vegna brots á lögunum og er sú regla í samræmi við 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga, nr. 50/1993.

Kem ég þá að næstsíðasta atriðinu sem kveðið er á um í þessu frumvarpi. Þar er lagt til að mælt verði fyrir um málsaðild samtaka samkvæmt 23. gr. og 23. gr. a höfundalaga vegna lögbannsaðgerða í þágu rétthafa. Í 1. mgr. 13. gr. a í frumvarpinu er lagt til að kveðið verði á um það með ótvíræðum hætti að þau höfundaréttarsamtök eða önnur samtök, sem hlotið hafa löggildingu mennta- og menningarmálaráðuneytisins til að gæta almennt hagsmuna höfunda og annarra rétthafa, hvort sem þeir eru félagar í samtökunum eða standa utan þeirra, gagnvart útvarpsstöðvum og öðrum þeim sem flytja verk sem njóta höfundaverndar opinberlega, geti fengið lagt almennt bann við flutningi eða öðrum notum verka sem löggilding samtakanna nær til og verndar njóta samkvæmt höfundalögum. Með þessu er gert ráð fyrir að vikið verði frá því skilyrði lögbanns að sá einn sem á beinna lögvarinna hagsmuna að gæta geti krafist slíks banns. Er sú tilhögun staðfesting á dómaframkvæmd og minni ég þar á nýlegan dóm Hæstaréttar frá 11. febrúar sl. í máli nr. 214/2009.

Að lokum er lagt til að innleidd verði sérstaklega í höfundalög 3. mgr. 8. gr. í tilskipun 2001/29/EB um rétt rétthafa og samtaka þeirra til lögbanns gegn þjónustu milliliða sem þátt eiga í höfundaréttarbrotum á netinu.

Í 3. mgr. 8. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 29/2001 er kveðið á um samræmingu tiltekinna þátta höfundaréttar og skyldra réttinda í upplýsingasamfélaginu og skyldu aðildarríkjanna til að sjá til þess að rétthafar séu í aðstöðu til að krefjast lögbanns gegn milliliðum ef þriðji aðili notar þjónustu þeirra til að brjóta gegn höfundarétti eða skyldum rétti. Við innleiðingu tilskipunarinnar, með lögum nr. 9/2006, var litið svo á að tilvitnað ákvæði teldist þegar uppfyllt með úrræðum sem fram koma í V. kafla laga nr. 30/2002. Í ljósi reynslunnar þykir hins vegar rétt að kveða skýrt á um rétt höfunda og annarra rétthafa til að beina kröfu um lögbann að þjónustuveitanda, til að mynda fjarskiptafyrirtæki, svo ekki fari á milli mála að slíkur réttur sé fyrir hendi samkvæmt íslenskum lögum. Mælt er fyrir slíkri heimild í 2. mgr. a-liðar 13. gr. frumvarpsins en reynsla rétthafa hefur sýnt að úrræði V. kafla laga um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu gagnist ekki nægilega, ein og sér, til að sporna við höfundaréttarbrotum á netinu. Ákvæðið felur í sér nýmæli þar sem gert er ráð fyrir sérstakri heimild til að leggja lögbann við atvinnu milliliða, þ.e. fyrst og fremst fjarskiptafyrirtækja. Tilgangurinn er fyrst og fremst sá að eyða mögulegum vafa um hvort lögbanni verði beint gegn fjarskiptafyrirtækjum vegna miðlunar, skyndivistunar eða hýsingar gagna í þeim tilvikum þegar um er að ræða meint brot þjónustuþega á ákvæðum höfundalaga. Í íslenskum rétti hefur verið miðað við að lögbann verði einungis lagt við tilteknum athöfnum sem eru taldar ólögmætar í sjálfu sér. Vegna orðalags ákvæða 12., 13. og 14. gr. laga nr. 30/2002 er mögulegt að óvissa yrði talin leika á því hvort þáttur fjarskiptafyrirtækis í ætluðu höfundaréttarbroti fæli í sér ólögmæta athöfn í sjálfu sér. Ekki verður séð að neinir lögverndaðir hagsmunir eigi að standa gegn því að sett verði ákvæði af því tagi sem hér er lýst, enda er heimild til lögbanns byggð á þeirri grundvallarforsendu að fyrir hendi sé réttarbrot af hálfu þjónustuþega sem sá sem fer fram á lögbann þyrfti eftir sem áður að sýna fram á.

Þetta er, eins og hv. þingmenn heyra, alltæknileg umræða enda höfundaréttur allflókinn en í stuttu máli má segja að nokkur nýmæli séu sem ég ætla að renna mjög hratt yfir.

Opinber söfn fá heimild til eintakagerðar í eigin starfsemi í öryggis- og varðveisluskyni, en ekki hafa verið nægar heimildir fyrir að mati þeirra sem í hlut eiga.

Takmörkunum á rétti notenda sem vegna fötlunar geta ekki lesið prentað mál til að gera eintök og dreifa vernduðu efni verður aflétt.

Samningsumboð Fjölíss vegna ljósritunar mun þá framvegis taka til allra höfunda óháð þjóðerni.

Ef þetta verður samþykkt verður tekið upp ákvæði um refsingu fyrir hlutdeild í höfundaréttarbrotum sem er bein afleiðing af breyttu umhverfi með tilkomu netsins.

Viðurkenning mennta- og menningarmálaráðuneytisins á samningsumboði og fyrirsvari höfundaréttarsamtaka fari fram eftir sérstökum málsmeðferðarreglum þannig að uppfyllt séu skilyrði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins.

Lagt er til að tekin verði upp í höfundalög valin ákvæði úr tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins um fullnustu hugverkaréttinda.

Mælt er fyrir um málsaðild samtaka vegna lögbannsaðgerða í þágu rétthafa.

Lagt er til að tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins um rétt rétthafa og samtaka þeirra til lögbanns gegn þjónustu milliliða verði sérstaklega innleidd.

Í stuttu máli sagt eru þetta þau nýmæli sem hér eru lögð til og eins og fram kom fyrr í máli mínu hafa þessi mál verið kynnt ítarlega og reynt hefur verið að fylgja tillögum höfundaréttarnefndar. En ég þykist vita að hv. menntamálanefnd sem fær málið væntanlega til umfjöllunar að lokinni 1. umr., muni fara ítarlega yfir það því að þetta krefst auðvitað umræðu sem kallar á mikla þekkingu á þessum heimi.

Eins og ég nefndi áðan er þetta afrakstur fyrsta áfanga í heildarendurskoðun höfundalaga sem er orðin mjög brýn vegna hraðrar lögþróunar á sviði höfundaréttar og skiptir líka máli að við fylgjum nágrannaríkjum okkar eftir í lögþróun hvað þetta varðar.

Í greinargerð með frumvarpinu er farið sérlega ítarlega yfir hverja efnisgrein frumvarpsins fyrir sig og kafað dýpra í þau mál sem ég hef rétt skautað yfir hér. Ég vil sérstaklega vekja athygli hv. þingmanna á að þar er farið nánar og ítarlegar yfir helstu breytingar með samanburði við ákvæði gildandi laga, sem skiptir auðvitað máli að meta.

Að því mæltu legg ég til að frumvarpinu verði að lokinni þessari 1. umr., virðulegi forseti, vísað til hv. menntamálanefndar.