138. löggjafarþing — 117. fundur,  30. apr. 2010.

framhaldsskólar.

578. mál
[16:03]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 92/2008, um framhaldsskóla, skipulag skólahalds, skólastarfs o.fl.

Það er ljóst að þegar við blasir glíma við fjárlagahalla upp á 100 milljarða þurfa menn að taka til á einhverjum vígstöðvum og get ég fúslega fallist á það. Mig langar engu að síður, í því sem hér er lagt til, að bera fram spurningar til hæstv. ráðherra samhliða því sem ég velti vöngum yfir því sem tekin er ákvörðun um að gera í frumvarpinu.

Við höfum löngum talað um að á tímum sem þessum skipti meginmáli að standa vörð um menntun, að ekki megi hvika frá því. Ég er ekki að segja að með frumvarpinu sé slíkt ekki hugsunin, það er greinileg hugsun hér að standa vörð um menntun án aukins kostnaðar.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra, og ég velti því fyrir mér vegna þess að í mínum huga skiptir það meginmáli í breytingu framhaldsskólalaganna, sem við erum hér að leggja til, um grundvöll nýrra námseininga þar sem vinnu nemenda átti að meta í stöðluðum námseiningum og sagt var að um það bil 60 einingar væru ársnám nemenda. Við ætluðum nú að miða einingarnar við námsframvindu nemandans og vinnu en ekki lengur við kennslustundafjölda kennarans. Verður hvikað frá þessu næstu fjögur árin af því að ekki á að fjölga kennsludögum? Eða ætla menn að fara í þessar breytingar án 180 kennsludaga og þróa breytingar á þessum nýju námseiningum eða er líka verið að slá því á frest? Ef svo er, að líka sé verið að slá því á frest, tel ég það óheillaspor, svo að það sé sagt. Ég tel það óheillaspor að fresta því um fimm ár að fara í þessar breytingar á námseiningunum þó svo að ekki sé hægt að fara í aukningu á þessum fimm dögum. Það hlýtur að vera hægt að fara þar einhverja millileið og ekki að slá á frest báðum þessum þáttum. Í mínum huga er það óásættanlegt vegna þess að þetta er eitt af grundvallaratriðunum í breytingu á framhaldsskólalögunum, grundvallaratriðunum, og við megum ekki, þrátt fyrir að illa ári, varpa fyrir róða því sem við töldum þó að skipti meginmáli.

Það er líka annað, frú forseti, sem mig langar að nefna. Það er af því að frestur er gefinn í lengingu skólaársins í 180 kennsludaga allt til 2015, fresturinn fyrir framhaldsskóla til þess að setja sér námsbrautalýsingar er líka settur til 2015. Þetta eru fjárhagsárin 2011, 2012, 2013, 2014 og 2015, þetta eru fimm ár. Þetta eru fimm næstu fjárhagsár sem við erum að veita frestinn.

Frú forseti. Þrátt fyrir að illa ári í efnahagslífi þjóðarinnar þá er þessi tími of langur vegna þess — og það þekki ég sem skólamanneskja — að um leið og slíkir frestir eru veittir er töluverð hætta á því að því þróunarstarfi sem á sér stað í því sem framhaldsskólalögin þó sögðu til um og farið er af stað í ýmsum skólum verði hreinlega ekki haldið áfram og menn bíði þar til kemur að 2013 hugsanlega eða 2014 af því að þá viti menn að þetta skellur á 2015.

Ég tel þennan tíma of langan. Ég gæti, frú forseti og hæstv. menntamálaráðherra, sæst á að árin yrðu þrjú vegna þess að það er ásættanlegra en hitt því að tilhneigingin er alltaf sú að ef frestur er veittur er beðið með allar breytingar, hvort heldur er innan frá eða utan frá, þar til eiginlega alveg í lokin. Ég legg því áherslu á að menn velti fyrir sér þeim langa fresti sem veittur er vegna þess að það þarf ekki endilega að kosta svo miklu til. Þó að kennarar og nemendur og skólasamfélagið sé tilbúið í þróunarstarf í þessa veru þarf ekki alltaf allt að kosta mikla fjármuni. Hugsanlega er hægt að fara aðrar leiðir innan skólans þannig að fólkinu, starfsfólkinu, kennurum, öðru starfsfólki, skólameisturum og nemendum sé gefið tækifæri til þess að vera í þessu þróunarstarfi. Ég tel hættu á að það falli niður ef fresturinn er svo langur.

Sömu sögu er að segja um 3. gr. Af því að illa árar, atvinnulífið er ekki jafnblómlegt og áður var, gefur það kannski augaleið að erfiðara verður að finna starfsþjálfunarsamninga fyrir einstaka nemendur. Þetta er hins vegar atriði sem skiptir kannski þá sem minnst mega sín innan skólakerfisins, innan framhaldsskólakerfisins, mestu máli. Hvernig ætlum við að halda utan um þá og vernda þá í því umhverfi sem við búum í núna ef við ætlum að draga úr því úrræði sem hugsað er fyrir þá sem standa höllustum fæti innan framhaldsskólanna?

Ég bið um að þetta sé skoðað og menn velti fyrir sér: Eru þetta réttu áherslurnar eða teljum við að við getum veitt og skólarnir séu þess umkomnir að leiða þetta starf sjálfir með einum eða öðrum hætti til hagsbóta fyrir þá nemendur sem hafðir voru í huga þegar þetta var sett inn?

Frú forseti. Þetta er það sem ég óskaði eftir að koma hér á framfæri og verð reyndar að fagna 4. gr. um skólasöfn því að aldrei var það ætlunin, með setningu laganna nr. 92/2008, að henda skólasöfnum út úr framhaldsskólunum þannig að þau fá verðugan sess. Þar sem ekki eru skólasöfn verða þessi tengsl við héraðsbókasöfnin á þeim stöðum sem þau eru. Sá kafli kostar ekkert en eru orð á blaði sem styrkja stöðu skólasafnanna svo og þeirra sem þar hafa starfað.