138. löggjafarþing — 117. fundur,  30. apr. 2010.

opinberir háskólar.

579. mál
[16:28]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hvað varðar skipan háskólaráðs er gert ráð fyrir að það sé sami fjöldi en innbyrðis hlutföll þeirra breytast þannig að fulltrúum ráðherra fækkar, fulltrúum háskólasamfélags fjölgar um einn og fulltrúum þeirra sem eru valdir af háskólaráðinu sjálfu fjölgar um einn. Það er sú breyting sem hér er boðuð og þetta miðast þá við tíu manna ráð en í skólum með færri en fimm þúsund nemendur er áfram gert ráð fyrir sex manna ráði.

Hvað varðar endurmenntunina höfum við talið mikilvægt að þessi rammi sé skýrari og hann hefur verið á floti hvað varðar þessar gjaldtökuheimildir. Þær hafa verið inni fyrir nám sem hefur verið skilgreint sem endurmenntun. Sú skilgreining hefur kannski verið toguð og teygð, ef svo mætti að orði komast, og ég tel mjög mikilvægt að þetta sé skýr rammi því að annars erum við að tala um skólagjöld við opinbera háskóla sem ekki hafa verið settar lagalegar heimildir fyrir. Mér finnst þetta mikilvægt, að ramminn sé skýr. Að sjálfsögðu kann þetta að hafa einhver áhrif en þó ekki til að mynda á nám sem hefur verið skilgreint sem endurmenntun og nám sem byggist á hinu þverfaglega MBA-námi og MPM-námi o.fl. Þetta kann að hafa áhrif á eitthvert námsframboð en ég tel að þó að svo sé skipti það fyrst og fremst máli að ramminn sé skýr.