138. löggjafarþing — 117. fundur,  30. apr. 2010.

mat á umhverfisáhrifum.

514. mál
[16:33]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég fagna þessu frumvarpi hálft í hvoru þar sem ég held að þetta sé viðleitni hæstv. umhverfisráðherra til að nálgast raunveruleikann með tímafresti. Ég verð þó að spyrja, í ljósi þess sem hæstv. ráðherra sagði hér um samskipti umboðsmanns Alþingis og ráðuneytisins, og í ljósi þess svars hæstv. ráðherra að ráðuneytið telji núgildandi lög ekki raunhæf, hvort þetta frumvarp sé nógu raunhæft. Við höfum dæmið um neðri hluta Þjórsár, sem við höfum rætt hér ítrekað, sem mundi ekki falla að þessum nýju lögum og er hvergi nærri nálægt því að vera innan þessara nýju lengdu fresta. Erum við að komast inn í raunveruleikann?

Ekki það að ég sé að mæla því bót að þetta taki svona langan tíma vegna þess að ég tel ýmsar aðrar ástæður fyrir því að málið hafi tafist en hér er talað um að það þurfi að kanna þessa hluti. Ég held að þar liggi kannski pólitískar ástæður að baki og við getum tekið þá umræðu einhvern tíma seinna. Það sem mér finnst mikilvægast að fá fram hjá hæstv. ráðherra er það hvort við séum að tala um raunhæfan frest núna og þá er það kannski önnur spurning að lokum: Hvað gerist ef hæstv. ráðherra fer fram úr? Eru einhver viðurlög? Er ástæða til þess að setja einhverja slíka pressu á ráðherra til að tryggt sé að hann beiti sér, og starfsfólki sínu, fyrir því að mál séu unnin innan tímafrests?