138. löggjafarþing — 117. fundur,  30. apr. 2010.

mat á umhverfisáhrifum.

514. mál
[16:35]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Ragnheiði Elínu Árnadóttur fyrir andsvarið. Jú, það er hárrétt sem þingmaðurinn talar hér um að við erum að tala um að koma til móts við vanda sem hefur verið fyrir hendi og umboðsmaður Alþingis hefur bent á í samskiptum við umhverfisráðuneytið og dregur fram þann veruleika sem fyrir hendi er, þ.e. þann að að núgildandi umsagnarfrestir duga ekki.

Þarna er farin mjög hófleg leið í að lengja frest, við lengjum hann um einn mánuð í flestum málum en höldum inni möguleikanum á sex mánuðum fyrir umfangsmeiri mál. Ég vil leyfa mér að vona að það dugi og eins og var undirliggjandi í spurningu þingmannsins er mikilvægt að maður sé raunsær en um leið að þetta sé ekki víkkað von úr viti.

Varðandi umræðuna um neðri hluta Þjórsár tek ég undir það með þingmanninum að ég held að við höfum átt nægilega rík orðaskipti um þau mál. Þar komu inn afskipti annarra ráðuneyta sem töfðu málið, eins og samgöngu- og sveitarstjórnaráðuneytið, sem gerði það að verkum að málið var ekki í hefðbundnum farvegi í umhverfisráðuneytinu.

Raunhæfir frestir? Ég get ekki annað en vonað að svo sé og það er einlægur vilji okkar, bæði minn og starfsfólksins í umhverfisráðuneytinu, að þetta dugi. Hvað varðar framúrkeyrslu fram úr þeim fresti sem settur er erum við komin að eftirlitshlutverki þingsins og væntanlega umboðsmanns Alþingis að því er varðar það aðhald sem ber að sýna ráðherra og framkvæmdarvaldinu í þeirra störfum.