138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

skipan og kjör seðlabankastjóra.

[10:37]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Það er gott að vita að það er nefnd að störfum við að kanna þetta mál eins og önnur vandamál ríkisstjórnarinnar en ég ýjaði hins vegar ekki að því að menn hefðu verið ráðnir án auglýsingar. Ég hélt því fram á grundvelli svars sem barst frá ráðuneytunum við fyrirspurn um það hversu margar slíkar ráðningar hefðu átt sér stað. Þá voru þær held ég eitthvað um 50 og hefur þá væntanlega fjölgað síðan í gær eða fyrradag þegar svarið barst.

Einnig er rangt af hæstv. forsætisráðherra að halda því fram að ég hafi sagt að seðlabankastjóri hafi verið ráðinn eitthvað löngu fyrir fram. Ég spurði einfaldlega hvenær ákvörðun hefði verið tekin um hver ætti að fá seðlabankastjórastólinn í ljósi þess að mikil umræða fór fram á sínum tíma um að einmitt þessi maður yrði fyrir valinu og einmitt þess vegna ætti aðeins einn seðlabankastjóri að sitja. En enn bíð ég svars við fyrirspurninni um hvenær (Gripið fram í.) ákvörðun var tekin um að þessi maður skyldi ráðinn á sérkjörum.