138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

launastefna ríkisstjórnarinnar.

[10:49]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Þá liggur það fyrir að hæstv. forsætisráðherra hafði ekki hugmynd um að verið væri að gefa fyrirheit um að auka laun seðlabankastjóra eins og raun hefur borið vitni, líkt og Lára V. Júlíusdóttir sagði í gær. Mér finnst það alvarlegt ef hæstv. forsætisráðherra fær ekki vitneskju um slíkt. Er hér um eitthvert smámál að ræða? Ég spyr hæstv. forsætisráðherra að því. Ég spyr hæstv. forsætisráðherra hvort það sé ekki nauðsynlegt að við köfum ofan í þetta mál og komumst að því hver veitti þetta loforð fram hjá sjálfum forsætisráðherranum. Finnst ekki hæstv. forsætisráðherra eðlilegt að þessari spurningu sé svarað?

Síðan vil ég að lokum segja það, frú forseti, að með bréfi kjararáðs er snertir þetta dótturfélag Landsbankans leikur greinilega vafi á því (Forseti hringir.) hvort forsvarsmenn dótturfélaga, eða réttara sagt dótturdótturfélaga Landsbankans, heyra undir lög um kjararáð. (Forseti hringir.) Það finnst mér ekki gott og ég hvet hæstv. forsætisráðherra til þess að beita sér í þeim efnum þannig að þeir búi við sömu kjör og aðrir Íslendingar þar sem launin (Forseti hringir.) fara þverrandi þessa dagana.