138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

dómstólar.

[10:54]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurnina. Hvað varðar skipun nýrra héraðsdómara hefur það ferli tekið ögn lengri tíma en til stóð vegna þess að margar umsóknir bárust og þetta þarf bara að hafa sinn gang, dómnefnd þarf að fara yfir umsóknir og gera sínar tillögur. En ég geri fastlega ráð fyrir því að ganga frá skipun nýrra dómara á morgun.

Varðandi það hvernig dómskerfið er í stakk búið til að takast á við aukið álag, komu í því sambandi erindi frá dómstólaráði og Hæstarétti fyrir jól sem brugðist var við m.a. með þeim hætti að héraðsdómurum verður fjölgað. Það blasir við að mikill málafjöldi er á leiðinni og þá verður auðvitað að taka afstöðu til þess hvernig bregðast á við. Það hefur verið nefnt að fjölga eigi hæstaréttardómurum og það hefur líka verið nefnt að koma eigi á fót millidómstigi. Ég er sjálf fylgjandi því að komið verði á fót millidómstigi, ekki einungis vegna aukins fjölda mála heldur líka vegna mannréttindasjónarmiða.

Það sem ég gerði í byrjun síðustu viku var að senda erindi til dómstólanna um hvort þeir hefðu hugað að því hvernig unnt sé að bregðast við því álagi sem í vændum er. Ég tel að þar eigi dómsvaldið líka að taka nokkra ábyrgð og láta vita af því hvað dómsvaldið telur að eigi að gera þannig að framkvæmdarvaldið geti þá lagt tillögu sína fyrir löggjafann í þessum efnum.