138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

dómstólar.

[10:55]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Frú forseti. Ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir dómsmála- og mannréttindaráðherra að hraða nokkuð þeirri vinnu sem fram undan er til þess að efla dómskerfið. Við höfum nú þegar lagt umtalsverða fjármuni í embætti sérstaks saksóknara og ég hygg reyndar að við þurfum jafnvel að setja frekari fjármuni í það embætti til þess að tryggja að rannsóknir gangi sæmilega hratt fyrir sig og örugglega. En það er svo mikilvægt að það gleymist ekki að líta á þessa endastöð málsins sem eru dómstólarnir sjálfir.

Það er alls ekki nóg að fjölga héraðsdómurum eins og samþykkt var núna í vetur, það mun ekki duga til þess að leysa þann mikla vanda sem þarna blasir óneitanlega við. Við höfum áður rætt hvort hægt væri að létta á dómskerfinu með því að færa minni mál frá því með einhverjum hætti.

Ég hvet hæstv. dómsmála- og mannréttindaráðherra til þess að hraða þessari vinnu, hvort sem það verður með því að setja hér á millidómstig, sem ég hygg að til framtíðar sé mjög skynsamlegt skref, eða þá að koma með þær tillögur (Forseti hringir.) sem þarf til þess að efla dómstólana og fá þá fjármuni sem þarf (Forseti hringir.) til að tryggja að dómstólarnir geti sinnt sínu hlutverki almennilega.