138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

takmarkanir RÚV á auglýsingamarkaði.

[11:02]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. menntamálaráðherra fyrir þessi skýru svör og tek undir það sjónarmið hennar að vitanlega þarf að mæta öllum takmörkunum á umsvifum RÚV á auglýsingamarkaði með mótvægisaðgerðum sem tryggja að Ríkisútvarpið geti sinnt af krafti sínu mikilvæga hlutverki.

Mig langaði að spyrja um afstöðu hæstv. ráðherra til þeirra ábendinga sem komu fram í áliti Samkeppniseftirlitsins í nóvember 2008 þar sem lagðar voru fram tvær tillögur, annars vegar að RÚV hyrfi alfarið af auglýsingamarkaði og hins vegar að settar yrðu skýrar takmarkanir um eftirtalin atriði: Að sett yrði ófrávíkjanleg gjaldskrá sem lyti staðfestingu og eftirliti, að svokallaðar fríbirtingar og kostanir væru óheimilar, að auglýsingatíma og markaðssókn yrðu settar skorður og að óheimilt yrði að birta auglýsingar inni í dagskrárefni.

Telur hún að þessar ábendingar séu réttmætar eða telur hún að takmarkanir (Forseti hringir.) eigi að beinast að öðrum þáttum?