138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

svör ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum.

[11:05]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Ég vek athygli hæstv. forseta á því að þessi liður í þingsköpunum sem var að ljúka er orðinn býsna haldlítill og nánast gagnslaus vegna þess að við þingmenn komum í ræðustól Alþingis og spyrjum hæstv. forsætisráðherra málefnalegra spurninga sem hún svarar síðan ekki. Ég get vel skilið að hæstv. forsætisráðherra vilji ekki svara spurningum í fjölmiðlum en hæstv. forsætisráðherra verður að svara þeim spurningum sem til hennar er beint í þinginu. Til þess er hæstv. forsætisráðherra hér.

Ég bar fram spurningar við hæstv. ráðherra út af tillögum um launahækkanir til handa seðlabankastjóra og fékk nánast engin svör önnur en þau að svörin væru skýr. Þetta verður auðvitað að breytast og þó að málið sé óheppilegt fyrir hæstv. forsætisráðherra og allir viti að Lára V. Júlíusdóttir, formaður bankaráðs Seðlabankans, hafi einungis verið að gera það sem henni bar að gera og henni var sagt að gera getur hæstv. forsætisráðherra (Forseti hringir.) ekki komist upp með það hér að reyna að hengja (Forseti hringir.) bakara fyrir smið og víkja sér undan ábyrgð í þessu alvarlega máli.