138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

svör ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum.

[11:09]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Ég vil blanda mér í þá umræðu sem hér er um fundarstjórn forseta. Ég get tekið undir það að þessi liður, fyrirspurnir til ráðherra, gengur ekki alveg upp og það er ekki vegna þeirra ástæðna sem hv. þm. Róbert Marshall nefndi.

Við höfum örfá tækifæri til að inna hæstv. ráðherra eftir svörum um mál sem brenna á þjóðfélaginu og það er algerlega óásættanlegt að hæstv. ráðherrar, þríspurðir og þráspurðir, svari ekki þeim fyrirspurnum sem til þeirra er beint.

Síðan geri ég líka athugasemd undir þessum lið, um fundarstjórn forseta, við orð hv. þm. Róberts Marshalls sem segir að allir þrír hv. þingmenn sem voru með þessa fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra — án árangurs — hafi ætlað sér að verða frægir á sömu fyrirspurn. Hvers konar virðingarleysi er það sem hv. þingmaður sýnir sjálfum sér og (Forseti hringir.) öðrum þingmönnum? Ég veit ekki betur en að þessi liður (Forseti hringir.) á dagskrá þingsins sé einmitt til þess ætlaður að þingið geti haft eftirlit með (Forseti hringir.) framkvæmdarvaldinu. Þetta snýst ekki um frægð.