138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

svör ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum.

[11:16]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég held að frú forseti geti verið sammála okkur öllum um að ef við eigum að draga einhvern lærdóm af því hruni sem hér átti sér stað þarf að auka eftirlit þingsins með framkvæmdarvaldinu. Með þeim spurningum sem við höfum lagt fram erum við að rækja þá skyldu að hafa eftirlit með störfum framkvæmdarvaldsins sem starfar í umboði þingsins. Ég held að það sé rétt að við förum betur yfir þetta mál. Ég óska hér með eftir því formlega að fundur verði haldinn í efnahags- og skattanefnd þingsins þar sem allir þeir aðilar sem koma að þessari ákvarðanatöku verði kallaðir fyrir, líka hæstv. forsætisráðherra til að henni gefist betri tími til að svara fyrir sig í þessari umræðu. Ég held að við séum fullfær um það í framhaldinu að leysa þetta verkefni á vettvangi nefndarinnar enda ber þingmönnum að rækja það hlutverk sitt að hafa aðhald með framkvæmdarvaldinu.