138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

skerðing lífeyrisréttinda og staða opinberu lífeyrissjóðanna.

[11:35]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Frjáls sparnaður á Íslandi hefur verið dapurlega lítill í gegnum tíðina — nema í lífeyrissjóðunum. Þar erum við með þvingaðan sparnað og hann er sem betur fer orðinn meiri en landsframleiðslan eins og hér hefur komið fram.

Skuldarar þurfa að átta sig á því að öll lán þarf að spara fyrst. Einhver þarf að fresta neyslu, þ.e. spara, til þess að annar geti flýtt neyslu, þ.e. tekið lán og eytt.

Óhjákvæmilega urðu lífeyrissjóðirnir vegna stærðar sinnar á fjármálamarkaðnum fyrir miklum áföllum þegar bankakerfið hrundi en erlendar eignir þeirra, sem eru umtalsverðar, vörðu þá töluvert fyrir áföllum. Þeir höfðu margir hverjir hagnast áður og bætt réttindi sín en hafa núna skert þau til baka, þó ekki allir.

Lífeyrissjóðirnir og við hv. þingmenn þurfum að læra af mistökunum í hruninu. Það voru gerð mistök. Almennir lífeyrissjóðir urðu til í samningum 1969 en það var fyrst með lögum frá hv. Alþingi um skylduaðild 1974 og 1980 sem aðildin varð almenn þannig að Alþingi hefur komið að því að byggja upp lífeyrissjóðina. Þess vegna er mjög mikilvægt að Alþingi skipti sér af þessu.

Réttindi í almennu sjóðunum standa og falla með ávöxtuninni en réttindi í LSR eru óháð ávöxtuninni. Þar bera skattgreiðendur tapið ef eitthvert verður. Þess vegna tel ég eðlilegt og hef margoft lagt til að sjóðfélagar í almennu sjóðunum kjósi stjórnirnar sjálfir en hins vegar sé opinberu sjóðunum meira og minna stýrt af ríkisvaldinu. Ég held að það sé mjög brýnt að tengja saman kosningarétt sjóðfélaga og skuldbindingar lífeyrissjóðanna. Sjóðfélagarnir hafa hag af því að ávöxtunin gangi vel.

Við erum líka með misræmi innan opinbera geirans sem er A- og B-deild. Því miður var það mál ekki leyst 1997 (Forseti hringir.) og þess vegna stöndum við uppi með þennan vanda.