138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

skerðing lífeyrisréttinda og staða opinberu lífeyrissjóðanna.

[11:43]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Frú forseti. Það hefur verið athyglisvert að hlusta á þessa umræðu í dag. Þótt ýmislegt megi betur fara í lífeyrissjóðakerfi okkar og stjórn þess mætti vera með öðrum hætti stöndum við Íslendingar í þakkarskuld við þá sem komu þessum öflugu sjóðum á.

Nú erum við að taka samfélag okkar til gagngerðrar endurskoðunar í kjölfar hrunsins og mér finnst að við ættum að nota þetta tækifæri til að fara ofan í saumana á lífeyrissjóðakerfinu eins og það er nú til að bæta það sem þarf að laga. Mér finnst mikilvægt að auka lýðræði í lífeyrissjóðunum. Þeir eru fyrir fólkið, ekki atvinnulífið og ekki stjórnvöld. Ég tek undir með hv. málshefjanda og fleirum sem hér hafa tjáð sig, það felst mikið misrétti í að velta tapi opinberra lífeyrissjóða yfir á skattgreiðendur sem þurfa þá ekki einungis að mæta tapi í sínum sjóðum heldur einnig greiða upp tapið í opinberum lífeyrissjóðum.

Mér finnst koma til greina að breyta lögum til að eyða þessu misrétti og ég er ekki bara að hugsa um framtíðina. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

Mikilvægast er þó að færa völdin til sjóðfélaganna og brjóta upp þær klíkur sem hafa ráðið ríkjum innan sjóðanna. Mikil ábyrgð hvílir á herðum almennra sjóðfélaga um að krefjast umbóta á kerfinu og gegnsæis í ákvörðunum sjóðsstjórnanna. Þá þurfum við að láta rannsaka þátt stjórnenda lífeyrissjóðanna í hruninu betur og draga menn til ábyrgðar ef þurfa þykir.