138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

skerðing lífeyrisréttinda og staða opinberu lífeyrissjóðanna.

[11:48]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa málefnalegu og ágætu umræðu. Ég held að það sé mikilvægt að halda því til haga að í heild er staða íslenska lífeyrissjóðakerfisins sterk. Hún er ekki jafnfirnasterk og hún var 2007 þar sem hún náði 130% af vergri landsframleiðslu en hún er eftir sem áður mjög sterk og hefur lagast milli ára. Það að vera með um 120% af vergri landsframleiðslu í hreinum eignum í lífeyrissjóðum er eftirsóknarverð staða. Það setur okkur nr. 1–3 á topp 10 listann meðal þjóða og það er á þeim topp 10 lista sem við viljum vera um leið og við fögnum því að við duttum af öðrum í morgun. Ísland er ekki lengur á topp 10 listanum yfir þau ríki sem líklegast er að komist í greiðsluþrot og það er virkilega ánægjuleg þróun að við höfum losnað úr þeim félagsskap.

Töpin í lífeyrissjóðunum eru tilfinnanleg og afskriftir þeirra núna vegna skuldabréfaáfalla eru stórar tölur. Ég geri ekki lítið úr því og hef þó sagt og segi að í það heila tekið hefur íslenska lífeyrissjóðakerfið siglt tiltölulega vel í gegnum þessi áföll. Það er rétt að hafa í huga að það eru til lífeyrissjóðir eins og Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda sem ekki hafa þurft að skerða réttindi, hvorki í ár né fyrra, og lof sé honum. Aðrir sjóðir hafa orðið verr úti og stærstu sjóðirnir eru með stærstu tölurnar. Þar af leiðandi er fullkomlega rétt og skylt að fara rækilega yfir það sem lið í heildarskoðun á þessum málum hvort fjárfestingarreglurnar og fjárfestingarstefnan eru þær sem við viljum hafa. Á að gera ríkari kröfur um áhættudreifingu, um að meiri hluti ávöxtunar skuli vera í tryggari pappírum en leyft var með rýmkun ýmissa reglna á árunum að baki? Síðan þurfum við endilega að fá alla saman að þessu borði til að skoða og kortleggja framtíðina. Um þetta þurfum við að ná sátt í samfélaginu því að þetta er stórt og mikilvægt samfélagslegt verkefni sem varðar okkur öll, bæði opinbera og almenna vinnumarkaðinn. Skotgrafahernaður og illdeilur þar á milli leysir (Forseti hringir.) engan vanda og þjónar engum uppbyggilegum tilgangi þannig að ég hvet alla til málefnalegrar og upplýstrar umræðu um þetta (Forseti hringir.) og til að sýna sáttavilja.