138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

skyldur erlendra fyrirtækja og starfskjör starfsmanna þeirra.

484. mál
[12:04]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætlaði ekki að fara í hanaslag við hæstv. ráðherra en hann velur þá leið. Hann veit ósköp vel að ég vil ekki ganga í Evrópusambandið og að ég er á þeirri skoðun að þó við gengjum þar inn þá hefðum við akkúrat engin áhrif á lagasetningu. Það sem ég var að spyrja um er að ef í ljós kemur augljós villa hjá Evrópusambandinu hvort við getum ekki sent inn bréf og bent á þessa villu eins og var í því dæmi sem ég nefndi áðan og ég hef beðist afsökunar á — ég hef beðið þjóðina afsökunar á því að hafa skrifað undir nefndarálit sem aðrir hafa reyndar ekki gert sem skrifuðu líka undir nefndarálitið eins og hæstv. fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, sem þá var í stjórnarandstöðu og hefði náttúrlega átt að gæta að því sem stjórnarandstöðuþingmaður að menn gerðu ekki mistök.

Hér er verið að ræða vissa hluti. Stjórnvöld hér á landi hafa sætt sig við sum atriði en önnur ekki. Ég vil spyrja hvort þau atriði sem menn sætta sig ekki við séu með þeim hætti að hér sé ekki fallist á þau eða ekki gengið eins langt og Eftirlitsstofnunin vill og hvort stofnunin þurfi þá að gagnrýna lagasetninguna þannig að samskiptin fari fram með einhvers konar tilraunalagasetningu í staðinn fyrir að senda þeim bréf og segja: „Heyrið, elsku vinir, það er galli í þessu hjá ykkur.“

Ég er alveg sammála því sem var nefnt hér síðar að menn eru að ganga inn á íslenska kjarasamninga og það á ekki rétt á sér. Hins vegar get ég alveg fallist á fyrri breytinguna sem hér er verið að laga og mun koma inn á í ræðu á eftir.

Ég spurði bara að því hvort það væru einhver samskipti við EFTA í öðru formi en með lagasetningu sem þeir þá gagnrýna eða gagnrýna ekki.