138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

skyldur erlendra fyrirtækja og starfskjör starfsmanna þeirra.

484. mál
[12:07]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fjarri er það mér að vilja fara í einhvern hanaslag við hv. þingmann. Hann spurði hvernig við kæmum athugasemdum að varðandi löggjöf sem okkur væri skylt að innleiða samkvæmt EES-samningnum. Staðreyndin er einfaldlega sú að við höfum ekki pólitíska aðkomu að þeim ákvörðunum. Svarið er því ósköp einfalt: Þar sem við erum ekki aðilar komum við ekki þeim áhrifum fram.

Ég fagna andsvari hv. þingmanns. Ég skil það sem einhver bestu rökin fyrir aðild að Evrópusambandinu sem ég hef heyrt fram færð í langan tíma hér í þingsal.

Að því er varðar aðferðafræðina er það þannig að Eftirlitsstofnun EFTA er óháð stofnun sem lýtur ekki boðvaldi ríkisstjórna. Við segjum mönnum þar af leiðandi ekki fyrir verkum. Hún hefur gert þessar athugasemdir út frá sinni túlkun á Evrópuréttinum. Við beittum annarri túlkun á Evrópuréttinum. Sá túlkunarágreiningur getur eftir atvikum endað fyrir dómstólum. Ég sagði í framsöguræðunni að ég er tilbúinn að fara með þann þátt málsins fyrir dómstóla og verja þá þætti sem ég tel nauðsynlegt að verja af því að þeir snerta grundvallarkjör á íslenskum vinnumarkaði. Þess vegna vildi ég með þessu lagafrumvarpi mæta öðrum athugasemdum stofnunarinnar sem alveg er hægt að halda fram að sé hægt að mæta án þess að það snerti grundvallarkjörin. Við getum tekist á um hinn ágreininginn ef stofnunin vill halda honum til streitu. Það er hennar að ákveða það og ég hef ekkert yfir henni að segja. Hún er hlutlaus samkvæmt þeim samningum sem við höfum gert við önnur ríki. Það þýðir ekkert að fárast yfir samningsumgjörðinni sem við höfum samið um við önnur ríki.

Ef hv. þingmaður ætlar að vera samkvæmur sjálfum sér vill hann væntanlega að við segjum okkur úr EES-samstarfinu. Það eru ágallarnir á því sem valda því að við þurfum að taka við löggjöf sem við höfum ekki haft áhrif á. Það eru ágallarnir á því sem valda því að við höfum ekki fullnægjandi pólitísk áhrif og getum ekki varið hagsmuni okkar. Af því verðum við auðvitað að draga ályktanir.