138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

barnaverndarlög.

557. mál
[12:15]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég flyt hér frumvarp til laga um breytingar á barnaverndarlögum nr. 80/2002, með síðari breytingum, sem lagt er fram á þingskjali 947.

Við endurskoðun laganna var lagt mat á hvernig lögin hefðu reynst og hvort þörf væri á breytingum. Farið er yfir reynsluna í yfirliti sem birt er sem fylgiskjal með frumvarpinu. Reynslan sýnir að lögin hafa dugað nokkuð vel en ávallt þarf að vera vel á verði til að ákvæði þessara mikilvægu laga séu eins skýr og kostur er og þar með réttarstaða barna og annarra aðila barnaverndarmála.

Þá sýnir reynslan einnig fram á nauðsyn á nýmælum í lögunum í samræmi við nýja þekkingu og breytta tíma.

Við undirbúning frumvarpsins var aflað fanga úr ýmsum áttum með umsóknum og ábendingum frá þeim sem vinna að þessum málum, ársskýrslum Barnaverndarstofu, úrskurðum kærunefndar barnaverndarmála, álitum umboðsmanns Alþingis og frá dómaframkvæmd. Jafnframt var höfð hliðsjón af þróun barnaverndarréttar á alþjóðavettvangi og þeim alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að, sérstaklega samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins og litið til þingsályktunar Alþingis frá 16. mars 2009 um lögfestingu samningsins.

Niðurstaðan var í meginatriðum sú að skerpa þurfi á tilteknum efnisatriðum laganna svo þau verði skýrari og afdráttarlausari en að auki þurfi að bæta ákveðnum nýmælum inn í löggjöfina á sviði barnaverndar.

Umfangsmestu nýmæli frumvarpsins felast annars vegar í breyttu fyrirkomulagi á vistun barna utan heimilis og verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga því tengdu og hins vegar nýjungum á mati á gæðum og eftirliti.

Áður en ég kem að þessum viðamestu breytingum frumvarpsins, mun ég gera nokkra grein fyrir öðrum tillögum í því.

Dæmi um atriði sem nauðsynlegt er að skýra og skerpa í frumvarpinu eða í lögunum eru kærunefnd barnaverndarmála, tilkynningarskylda almennings til barnaverndarnefnda og samstarf barnaverndarnefnda við aðra aðila sem vinna með börnum. Önnur ákvæði fela í sér skýrari ákvæði auk þess sem nýmæli fléttast þar inn í.

Hvað kærunefndina varðar hafa spurningar vaknað um hvaða ákvörðunum barnaverndarnefnda megi skjóta til hennar. Getur það bæði valdið töfum á úrskurði og því að réttur aðila til að fá mál sín endurskoðuð hjá kærunefndinni sé ekki nægilega vel tryggður. Í frumvarpinu er því kveðið skýrt á um hvaða ákvörðunum barnaverndarnefnda megi skjóta til kærunefndar barnaverndarmála auk þess sem lagðar eru til nokkrar breytingar á málsmeðferðinni.

Tilkynningarskylda til barnaverndarnefnda er einn af hornsteinum barnaverndarstarfs og þarf á stöðugu endurmati að halda svo hún komi að sem mestu gagni. Í þessu skyni er almennu tilkynningarskyldunni, þ.e. tilkynningarskyldu almennings, stillt upp með nýjum hætti og lagt til að tekið verði sérstaklega fram að tilkynningarskyldan taki til þess þegar talið er að barn verði fyrir ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi. Er sú breyting í samræmi við lög nr. 52/2009, en þar var sú mikilvæga breyting gerð á 1. gr. laganna að sérstaklega var tekið fram að óheimilt væri með öllu að beita börn ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi.

Gott samstarf við aðila sem starfa með börnum er afar mikilvægt til að þjónustan nýtist börnum sem best. Samstarf verður að vera mjög virkt og upplýsingar þurfa að ganga greiðlega á milli aðila, allt með hagsmuni barna að leiðarljósi. Ákvæði laganna um málsmeðferð fyrir dómi voru endurskoðuð og lögð fram nokkur nýmæli, eins og skýr ákvæði um lögsögu og það mikilvæga nýmæli að málin skuli hljóta flýtimeðferð.

Einnig er kveðið með skýrum hætti á um sérfróða meðdómsmenn. Lagt er til að réttarstaða fósturforeldra verði gerð skýrari hvað varðar umgengni við barn í fóstri. Jafnframt er lagt til það nýmæli að fósturforeldrar barns í varanlegu fóstri verði aðilar að máli um umgengni og geti skotið máli til kærunefndar barnaverndarmála.

Gott dæmi um nýjung vegna breyttra tíma er það að börn sem dvelja hér á landi án þess að eiga hér lögheimili og börn sem koma til landsins án forsjáraðila sinna fá hér hæli eða dvalarleyfi. Nauðsynlegt er að skýrt liggi fyrir hvaða barnaverndarnefnd skuli fara með mál, umsjá eða forsjá barnsins og bera ábyrgð á kostnaði vegna ráðstöfunar þess í fóstur eða aðra vistun.

Í frumvarpinu er því kveðið sérstaklega á um þessi atriði og jafnframt lögð áhersla á samstarf milli aðila og samfellu í slíkum málum. Aldrei má sofna á verðinum heldur þarf stöðugt að fylgjast með og afla nýrrar þekkingar með það að markmiði að bæta réttarstöðu barna innan barnaverndarkerfisins. Víða í frumvarpinu eru því lagðar fram breytingar í þá veru og ég nefni fimm atriði sérstaklega.

Í fyrsta lagi er mjög mikilvægt að auka þátttöku barns í ákvörðunum sem varða það sjálft. Í frumvarpinu er lagt til að fellt verði niður 12 ára aldursmarkið sem er í núgildandi lögum þegar gefa á barni kost á að tjá sig um mál sín en þess í stað skuli miða við þroska barnsins óháð aldri. Er þetta í samræmi við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins og ákvæði sama efnis í barnalögum.

Í öðru lagi er lagt til að fjallað verði með skýrari hætti um réttindi barns við málsmeðferð fyrir dómi.

Í þriðja lagi er mikilvægt nýmæli sem ætlað er að tryggja betur réttindi barns í fóstri. Þar er m.a. lagt til að barnaverndarnefnd beri ávallt ábyrgð á því að taka ákvarðanir um umgengni við barn eftir að foreldri afsalar sér umsjá eða forsjá eða er svipt forsjá.

Í fjórða lagi er lagt til að tryggður sé enn betur en nú er réttur barna sem dvelja á stofnunum ríkisins til einkalífs, til að ráða persónulegum högum sínum og til að hafa samskipti við aðra að því marki sem það samræmist því markmiði sem nást á í vistuninni.

Í fimmta lagi hafa nýmæli laganna um mat og eftirlit með gæðum úrræða og vistun barna utan heimilis sannarlega það markmið að tryggja betur réttarstöðu barna.

Virðulegi forseti. Ein viðamesta breytingin sem lögð er til í frumvarpinu snýst um vistun barna utan heimilis. Eins og rakið er í athugasemdum með frumvarpinu skiptast vistanir barna utan heimilis nú í nokkra flokka. Ríkið ber ábyrgð á sérhæfðum úrræðum, þ.e. meðferðarheimilum og neyðarvistun. Sveitarfélög bera ábyrgð á öðrum úrræðum, sem eru sérstök heimili og stofnanir, þ.e. vistheimili barna, fjölskylduheimili og sambýli, vistforeldri á einkaheimili, svo og fósturheimili eða styrkt fóstur, en í því síðastnefnda tekur ríkið þátt í kostnaði.

Ýmsir ókostir eru við þessa verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Helstu ókostirnir eru þeir að óljós skil eru á milli sérhæfðrar meðferðar á vegum ríkisins og þess stuðnings sem barnaverndarnefndir veita börnum sem vistuð eru á heimilum eða stofnunum. Einnig hafa fæstar barnaverndarnefndir getað boðið upp á þau heimili og stofnanir sem lög kveða á um að Reykjavík undanskilinni. Þá er réttur barna til að njóta úrræða sveitarfélaga, eins og vistheimilis, fjölskylduheimilis eða sambýlis, mjög mismunandi eftir búsetu. Skipting kostnaðar milli ríkis og sveitarfélaga getur valdið togstreitu þegar velja á heppilegt úrræði og núverandi kerfi gerir ekki nægilega samræmdar kröfur til vistunar barna utan heimilis.

Í frumvarpinu er lagt til að auka ábyrgð ríkisins á uppbyggingu heimila og stofnana. Meginröksemdin fyrir þessu er að með því fáist samfellt yfirlit og yfirsýn yfir helstu úrræði sem í boði eru, sem þýðir um leið skipulagðari nýtingu á úrræðum og betri nýtingu á fjármunum ríkis og sveitarfélaga. Um leið aukast gæðin, meiri sveigjanleiki verður mögulegur sem og sérhæfing úrræða og frekari samræming auk þess sem verkaskipting ríkis og sveitarfélaga verður skýrari. Verði þessi leið farin breytist um leið fyrirkomulag á greiðslu vegna ráðstöfunar barns utan heimilis. Um nokkrar leiðir er að velja til að ná þessu markmiði. Sú leið sem lögð er til í frumvarpinu felur í sér að ríkið taki yfir þá ábyrgð sem sveitarfélögin bera nú á því að koma upp stofnunum og sérstökum heimilum fyrir börn, þ.e. vistheimilum barna, fjölskylduheimilum og sambýlum.

Önnur vistúrræði verða áfram hjá barnaverndarnefndum, þ.e. vistanir á einkaheimilum og fósturheimilum. Eins og áður var vikið að hafa framangreind heimili og stofnanir í raun einungis verið rekin í Reykjavík en önnur sveitarfélög hafa þurft að leysa úr málum barna sem þurfa á slíkum vistunum að halda með öðrum hætti, svo sem með vistunum á einkaheimilum.

Það er augljóst réttlætismál að öll börn á landinu eigi aðgang að framangreindum heimilum og stofnunum án tillits til búsetu. Tillagan felur í sér að fjögur heimili sem nú eru rekin á vegum Reykjavíkurborgar færist til ríkisins og er árlegur rekstrarkostnaður þeirra áætlaður um 204 millj. kr. Nákvæmar tölur um kostnað annarra sveitarfélaga af þeirri tegund vistunar sem færist til ríkisins liggja ekki fyrir en áætlað er að kostnaður við slík úrræði sé á bilinu 50–100 millj. kr.

Frumvarpið gerir ráð fyrir að sveitarfélög taki þátt í kostnaði við vistun barna utan heimilis. Greiðslur verði staðlaðar meira en nú er og sveitarfélögin greiði gjald vegna vistunar barns á heimili eða stofnun á ábyrgð ríkisins. Gjaldið verði útfært í reglugerð sem ráðuneytið setur og verður þar að sjálfsögðu höfð samvinna við Samband íslenskra sveitarfélaga. Stefnt er að því að þessi breyting hafi sem minnst áhrif á hlutdeild ríkis og sveitarfélaga í heildarkostnaði við vistun barna utan heimilis.

Loks er í frumvarpinu það mikilvæga nýmæli að auka gæði og eftirlit með úrræðum þar sem börn eru vistuð á ábyrgð barnaverndaryfirvalda. Ekki þarf að hafa mörg orð um nauðsyn þess að vanda hér til verka. Til þess eru dæmin sem við höfum af vistheimilum fyrri tíma allt of ljós og allt of fersk í minni eftir vandaða greiningu vistheimilanefndar á vanrækslusyndum fyrri tíma.

Í frumvarpinu er lagt til að lögfesta ákvæði sem skýra frekar verkaskiptingu þeirra aðila sem bera ábyrgð á að byggja upp og beita úrræðum samkvæmt ákvæðum barnaverndarlaga, m.a. til að tryggja að fyrirkomulag úrræða og markmið vistunar uppfylli ákvæði laga, reglugerða og staðla og í því skyni eru sérstök ákvæði um eftirlit af hálfu óháðra eftirlitsaðila. Þá er haft að markmiði að tryggja að ráðstöfun nái tilgangi sínum og að réttindi barna séu virt og að gæði úrræða séu aukin og stuðlað sé að umbótum á því sviði. Í athugasemdum frumvarpsins er fjallað ítarlega um þetta mikilvæga málefni.

Rétt er að upplýsa að í ráðuneytinu er í gangi vinna um undirbúning sjálfstæðrar eftirlitsstofnunar með kaupum ríkisins á velferðarþjónustu í samræmi við það fyrirheit sem ég gaf í haust þegar skýrsla vistheimilanefndar um Heyrnleysingjaskólann og önnur vistheimili var kynnt. Við stefnum að því að í haust verði lagt fram frumvarp um sjálfstæða eftirlitsstofnun með kaupum á velferðarþjónustu þar sem eftirlitið verði skilið að fullu og öllu frá ákvörðunum stofnana um kaup á þjónustu, þannig að það gerist aldrei aftur á Íslandi að sami aðilinn taki ákvörðun um tiltekna velferðarþjónustu, beri ábyrgð á henni og hafi líka eftirlit með framkvæmd hennar, gæðum og því hvort réttindi þeirra barna sem fá notið þjónustunnar séu virt.

Virðulegi forseti. Ég legg til að málinu verði vísað til félags- og tryggingamálanefndar að lokinni þessari umræðu.