138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

barnaverndarlög.

557. mál
[12:27]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra Árna Páli Árnasyni fyrir ágæta ræðu. Hér er verið að ræða mjög viðkvæmt og mikið mál. Eins og hæstv. ráðherra kom inn á í lok ræðu sinnar eru menn að reyna að læra af Breiðavíkurmálinu og ætla sér að setja upp eftirlitsstofnun sem á að fylgjast með aðgerðum sem þá ættu að vera komnar undir ríkið. Við það hef ég kannski mestar athugasemdir. Yfir barnaverndarmálum er nefnilega gífurlega mikið dulúð, frú forseti. Aðilar máls geta jafnvel ekki fengið upplýsingar um það, hvað þá utanaðkomandi, og aðilar máls geta ekki kært mál vegna þess að dulúðin er svo mikil.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Hefur eitthvað breyst í þessari dulúð? Við höfðum hér fyrir hrun ágætiseftirlitsstofnun sem hét Fjármálaeftirlitið, sem átti að hafa eftirlit með einkafyrirtækjum og brást. Getur ekki verið að opinber stofnun sem á að hafa eftirlit með félögum sínum, opinberum starfsmönnum, bregðist á sama hátt? Er þetta ekki fullmikil trú á eftirlitsstofnanir?