138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

barnaverndarlög.

557. mál
[12:29]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í grundvallaratriðum hefur lítið breyst í aðferðafræði opinbers eftirlits með velferðarþjónustu frá því á tímum Breiðavíkurmálsins, sami maður ákvað að samið skyldi við heimilið í Breiðavík og bar ábyrgð á að senda börnin þangað. Hann átti líka að hafa eftirlit með framkvæmdinni og var þar af leiðandi fullkomlega vanhæfur til að fylgjast með framgangi mála. Þannig var ástandið. Við þurfum að skilja eftirlitið frá og búa því þannig umgjörð að það verði trúverðugt og geti starfað sjálfstætt. Ég held að í því samhengi verðum við líka að horfa til séreðlis barnaverndarmála og trúnaðar og leyndar sem óhjákvæmilega þarf að vera yfir þeim málum til að verja hag barnanna.

Þess vegna skiptir miklu máli að vanda til verka. Ég held að það komi vel til álita að eftirlitsstofnun með kaupum á velferðarþjónustu verði undir þingkjörinni stjórn þannig að hún sé ekki undir stjórn sama ráðherra og ber ábyrgð á úrræðunum. Það er auðvitað framkvæmdarvaldið og stofnanir sem undir ráðherrann heyra sem bera ábyrgð á ákvörðunum um við hverja er samið og hvernig er samið. En með sama hætti og fjárhagslegt eftirlit með fjárreiðum ríkisins er í höndum Ríkisendurskoðunar sem lýtur þingkjörinni stjórn, þá sé ég ekkert óeðlilegt við það að eftirlitsstofnun með gæðum á kaupum á velferðarþjónustu sé líka undir þingkjörinni stjórn og þar með aðskilin frá mögulegri hagsmunatogstreitu þar sem hún heyrir ekki undir sama framkvæmdarvald og tók ákvarðanir um við hverja yrði samið.